Ljósm. úr safni/ sá.

Heimamenn sterkari á endasprettinum

Snæfell mátti játa sig sigrað gegn Selfossi á útivelli, 75-59, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudagskvöld. Leikurinn var jafn og spennandi framan af en í síðari hálfleik sigu heimamenn fram úr og sigruðu að lokum með 16 stigum.

Heimamenn skoruðu fyrstu stigin en Snæfellingar voru sterkari í upphafsfjórðungnum. Þeir komust sjö stigum yfir eftir miðjan leikhlutann áður en Selfyssingar tóku smá rispu og minnkuðu muninn. Hólmarar leiddu með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta, 18-20. Mikið jafnræði var með liðunum framan af öðrum leikhluta, þar sem liðin hentu forystunni á milli sín. Selfyssingar náðu síðan góðum kafla undir lok fyrri hálfleiks, héldu Snæfellingum stigalausum síðustu þrjár mínúturnar og leiddu með ellefu stigum í hléinu, 42-31.

Hólmarar komu ákveðnir til síðari hálfleiks, minnkuðu muninn í fimm stig snemma í þriðja leikhluta og síðan aftur í fjögur stig seinna í leikhlutanum. Nær komust þeir hins vegar ekki og Selfoss leiddi með átta stigum fyrir lokafjórðunginn, 58-50. Fjórði leikhluti var síðan heimamanna. Þeir hleyptu Snæfelli aldrei inn í leikinn heldur bættu hægt en örugglega við forskot sitt og sigruðu að lokum með 16 stigum, 75-59.

Anders Gabriel Adersteg var stigahæstur í liði Snæfells með 19 stig og sex fráköst. Brandon Cataldo skoraði 17 stig og reif niður 16 fráköst, 53 ára gamall. Pavel Kraljic skoraði tíu stig og tók sjö fráköst, Aron Ingi Hinriksson skoraði níu stig, Guðni Sumarliðason skoraði þrjú og Viktor Brimnir Ásmundarson skoraði eitt stig.

Rhys Sundimalt var stigahæstur í liði Selfyssinga en Christian Cunningham var þeirra besti maður. Hann skoraði 13 stig, reif niður 21 frákast og fimm stoðsendingar. Kristijan Vladovic skoraði 13 astig einnig og Maciek Klimaszewski skoraði tíu stig og tók sex fráköst.

Snæfellingar eru án stiga á botni deildarinnar eftir fyrstu tvo leiki vetrarins. Næsti leikur liðsins er Vesturlandsslagur gegn Skallagrími í Stykkishólmi á föstudagskvöld, 18. október.

Líkar þetta

Fleiri fréttir