Ingimundur Orri setti hvorki fleiri né færri en 59 stig á töfluna. Ljósm. jho.

Fyrstu stigin í hús

ÍA krækti í fyrsta sigur vetrarins í 2. deild karla í körfuknattleik þegar liðið lagði Stál-úlf á föstudagskvöld. Leikið var á Akranesi.

Leikurinn fór fjörlega af stað. Eins og við var að búast af liði Skagamanna voru sóknirnar hraðar og mörg þriggja stiga skot látin fljúga. Stigaskorið var mjög hátt í leiknum, sem var engu að síður mjög jafn. Hvorugu liðinu tókst að slíta sig frá honu og Skagamenn leiddu með sex stigum í hálfleik, 70-64.

Síðari hálfleikur var með svipuðu sniði, mikill hraði og mikið skorað. Þegar leið á leikinn fundu Skagamenn betur taktinn í vörninni. Skóp það sigur heimamanna, ekki síður en gríðarlega hátt stigaskor. Lokatölur leiksins urðu 143-124, ÍA í vil.

Ingimundur Orri skoraði hvorki fleiri né færri en 59 stig fyrir Skagamenn, en þetta var annar leikurinn í röð þar sem Ingimundur skorar 50 stig eða fleiri. Chaz Franklin fylgdi svo fast á hæla Ingimundar með 51 stig.

Arvydas var stigahæstur í liði gestanna með 31 stig og Sindri Leví, sem var að leika gegn sínum gömlu félögum, kom næstur með 22 stig.

Eftir leikinn hafa Skagamenn tvö stig í 9. sæti deildarinnar eftir þrjá leiki. Næst leika Skagamenn á laugardaginn, 19. október, þegar þeir mæta Ármanni á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir