Marinó Þór Pálmason í baráttu við varnarmenn Breiðabliks. Ljósm. Skallagrímur.

Gestirnir númeri of stórir

Skallagrímur tapaði gegn Breiðabliki, 67-69, þegar liðin mættust í Borgarnesi í gærkvöldi. Gestirnir úr Kópavogi reyndust einu númeri of stórir fyrir Borgnesinga að þessu sinni. Breiðablik tók stjórn leiksins snemma í sínar hendur og lét hana aldrei af hendi.

Jafnræði var með liðunum framan af upphafsfjórðungnum. Blikar höfðu heldur yfirhöndina en Skallagrímsmenn fylgdu þeim eins og skugginn. Eftir átta mínútna leik var staðan 13-15 fyrir Blika, en þá tóku þeir smá rispu og leiddu með sjö stigum eftir fyrsta leikhluta, 17-24. Það var síðan í öðrum leikhluta sem leiðir skildu. Blikar náðu jafnt og þétt að auka forskot sitt í 21 stig áður en flautað var til hálfleiks, 29-50.

Þriðji leikhluti var keimlíkur öðrum fjórðungi. Breiðablik bætti hægt og sígandi við forskotið og leiddi með 76 stigum gegn 44 fyrir lokafjórðunginn. Skallagrímsmenn náðu ekki að minnka muninn að ráði í fjórða og síðasta leikhlutanum. Leiknum lauk því með 30 stiga sigri gestanna úr Kópavogi, 67-97.

Allir leikmenn Skallagríms komust á blað í leiknum. Davíð Guðmundsson var stigahsætur í með 12 stig. Kristófer Gíslason skoraði ellefu stig, Kristján Örn Ómarsson var með sjö stig og þeir Arnar Smári Bjarnason, Ásbjörn Baldvinsson og Marinó Þór Pálmason skoruðu sex stig hver. Isaiah Coddon var með fimm stig, Almar Örn Björnsson og Gunnar Örn Ómarsson skoruðu þrjú stig hvor og Jón Hrafn Baldvinsson skoraði tvö stig.

Larry Thomas var atkvæðamestur í liði gestanna með 24 stig, Snorri Vignisson var með 15 stig og átta fráköst, Árni Elmar Hrafnsson skoraði 15 stig og Sveinbjörn Jóhannesson var með 14 stig og ellefu fráköst.

Skallagrímsmenn eru án stiga eftir fyrstu tvo leiki vetrarins. Næsti leikur liðsins er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli í Stykkishólmi föstudaginn 18. október næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir