Skallagrímskonur sóttu fyrstu stig vetrarins með öruggum sigri á Grindavík. Ljósm. Skallagrímur.

Sannfærandi sigur Skallagríms

Skallagrímskonur kræktu í fyrstu stig vetrarins í Domino‘s deildinni þegar þær unnu sannfærandi sigur á liði Grindavíkur, 74-59. Leikið var í Borgarnesi í gærkvöldi.

Skallagrímur hafði heldur yfirhöndina í upphafi leiks, en gestirnir á Grindavík voru þó aldrei langt undan. Þegar komið var fram yfir miðjan fyrsta leikhluta höfðu Borgnesingar fjögurra stiga forskot, 14-10, en eftir það skildu leiðir. Við tók góður leikkafli Skallagrímskvenna sem skilaði 13 stiga forskoti eftir upphafsfjórðunginn, 27-14. Þær héldu uppteknum hætti í öðrum leikhltua, slitu sig enn lengra frá gestunum og voru komnar í vænlega stöðu í hálfleik, 46-24.

Skallagrímskonur byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og juku forskotið í 30 stig. Gestirnir komu aðeins til baka en Borgnesingar leiddu með 24 stigum fyrir lokafjórðunginn, 65-41. Grindvíkingar minnkuðu muninn hægt og sígandi í fjórða leikhlutanum, en sigur Skallagrímskvenna var aldrei í hættu. Þegar lokaflautan gall munaði 15 stigum á liðunum, 74-59 og öruggur sigur Skallagríms staðreynd.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 24 stig, tíu fráköst, sjö stoðsendingar og fimm stolna bolta. Emilie Hesseldal skoraði 16 stig, tók tólf fráköst, stal sex boltum og gaf fimm stoðsendingar og Maja Michalska var með 15 stig. Árnína Lena Rúnarsdóttir skoraði níu stig, Gunnhildur Lind Hansdóttir var með fjögur stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði þrjú stig, tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar, Þórunn Birta Þórðardóttir var með tvö stig og Arna Hrönn Ámundadóttir skoraði eitt.

Skallagrímur situr eftir leikinn í 5. sæti deildarinnar með tvö stig eftir tvo leiki. Næsti leikur Borgnesinga er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli í Stykkishólmi miðvikudaginn 16. október næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir