Helga Hjördís Björgvinsdóttir og félagar hennar í Snæfelli náðu sér ekki á strik gegn firnasterku liði Vals. Ljósm. úr safni.

Meistararnir of stór biti

Snæfellskonur máttu játa sig sigraðar gegn Íslandsmeisturum Hauka, 110-75, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Reykjavík.

Snæfellskonur mættu ákveðnar til leiks, léku sterka vörn og höfðu yfiröndina á upphafsmínútunum. Valskonur fundu þó taktinn snemma og voru búnar að jafna í 10-10 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður, 10-10. Eftir það áttu Valskonur góðan leikkafla og leiddu með tíu stigum eftir upphafsfjórðunginn. Snæfell komst eiginlega aldrei aftur inn í leikinn eftir þetta áhlaup Vals í fyrsta leikhlutanum. Valsliðið jók forystu sína jafnt og þétt allan annan leikhlutann og var komið með þægilegt 25 stiga forskot þegar flautað var til hálfleiks, 55-30.

Snæfellsliðið lék betur í síðari hálfleik en það dugði þó ekki til að gera atlögu gegn gríðarsterku liði Vals. Staðan eftir þriðja leikhluta var 80-56 og góður lokafjórðungur skilaði Val að lokum stórsigri, 110-75.

Vera Annika Pirttinen var atkvæðamest í liði Snæfells með 18 stig og sjö stoðsendingar, Chandler Smith var með 16 stig og fimm fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði tólf stig og Helga Hjördís Björgvinsdóttir var með tíu stig. Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði níu stig, tók sjö fráköst og varði fjögur skot, Rebekka Rán Karlsdóttir var með sjö stig og Emese Vida skoraði þrjú og tók átta fráköst.

Í liði Vals var Kiana Johnson stigahæst með 33 stig, auk þess að taka fimm fráköst, gefa fimm stoðsendingar og stela fimm boltum. Dagbjört Dögg Karlsdóttir var með 23 stig og Helena Sverrisdóttir skoraði 22 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar. Sylvía Rún Hálfdánardóttir var með 15 stig og sjö fráköst og Hallveig Jónsdóttir skoraði tíu stig.

Snæfell hefur tvö stig eftir fyrstu tvo leiki vetrarins og situr í 6. sæti deildarinnar. Næsti leikur Snæfellskvenna er Vesturlandsslagur gegn Skallagrími miðvikudaginn 16. október næstkomandi. Sá leikur fer fram í Stykkishólmi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir