Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Tap í fyrsta leik

Skallagrímur mátti játa sig sigraðan gegn sterku liði Álftaness, 90-65, í fyrstu umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Leikið var á Álftanesi á föstudagskvöld.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks. Heimamenn leiddu snemma í fyrsta leikhluta, en Skallagrímsmenn komust yfir stutta stund áður en Álftnesingar tóku forystuna að nýju seint í leikhlutanum. Leiddu þeir með þremur stigum að upphafsfjórðungnum loknum, 24-21. Álftnesingar komust níu stigum yfir snemma í öðrum leikhluta áður en Skallagrímsmenn minnkuðu muninn í tvö stig í stöðunni 30-28. Þá tóku heimamenn heldur betur rispu og skoruðu 21 stig gegn aðeins þremur stigum Skallagríms það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Staðan í hléinu var því 51-31 og heimamenn með unninn leik í höndunum.

Skallagrímsmenn minnkuðu muninn lítið eitt í fjórða leikhluta og munaði 17 stigum á liðunum fyrir lokafjórðunginn, 67-50. Framan af fjórða leikhluta voru Skallagrímsmenn öflugri. Þeir náðu hægt en örugglega að kroppa stig af forskoti heimamanna. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var forskot Álftnesinga komið niður í tólf stig. Þá tóku heimamenn við sér að nýju og gerðu út um leikinn með miklum endaspretti. Loktaölur urðu 90-65, Álftnesingum í vil.

Arnar Smári Bjarnason var stigahæstur leikmanna Skallagríms með 15 stig en Kristján Orri Ómarsson kom honum næstur með 13 stig og sjö fráköst. Kristófer Gíslason skoraði níu stig, Hjalti Ásberg Þorleifsson var með sex stig og sjö fráköst, Jón Hrafn Baldvinsson sex stig og sex fráköst, Isaiah Coddon skoraði sex stig og Davíð Guðmundsson og Ásbjörn Baldvinsson skoruðu fimm stig hvor.

Samuel Prescott Jr. átti stórleik í liði heimamanna, skoraði 37 stig og tók níu fráköst. Birgir Björn Pétursson var með 15 stig og fimm fráköst, Vilhjálmur Kári Jensson skoraði tíu og tók tíu fráköst og Þorgeir Kristinn Blöndal skoraði tíu stig og tók sex fráköst.

Skallagrímur situr í sjöunda sæti deildarinnar án stiga eftir fyrstu umferðina. Næst leika Borgnesingar gegn Breiðabliki fimmtudaginn 10. október. Sá leikur fer fram í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir