Ljósm. úr safni/ sá.

Stórt tap á heimavelli

Snæfellingar máttu sætta sig við stórt tap gegn sterku Vestraliði, 64-114, þegar liðin mættust í fyrstu umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Leikið var í Stykkishólmi á föstudagskvöld.

Gestirnir frá Ísafirði náðu undirtökunum snemma leiks, leiddu 9-14 um miðjan fyrsta leikhluta, bættu síðan í og höfðu 13 stiga forystu að honum loknum, 31-18. Þeir settu síðan í fluggírinn í öðrum leikhluta, juku forskotið jafnt og þétt og leiddu með 34 stigum í hléinu, 32-66.

Snæfellsliðið náði sér ekki á strik eftir hléið og missti Vestra enn lengra fram úr sér í þriðja leikhluta. Að honum loknum var staðan 43-95 og úrslit leiksins ráðin. Snæfellingar voru þó ekki af baki dottnir og áttu sinn besta fjórðung í fjórða leikhluta, þar sem þeir skoruðu 21 stig á móti 19 stigum gestanna. Lokatölur urðu því 64-114 og stórt tap Snæfells staðreynd.

Pavel Kraljic skoraði 13 stig fyrir Snæfell, Anders Gabriel Adersteg var með tólf stig og sex fráköst, Brandon Cataldo ellefu stig og átta fráköst og Guðni Sumarliðason ellefu stig. Aron Ingi Hinriksson og Dawid Einar Karlsson skoruðu fimm stig og þeir Kristófer Kort Kristjánsson, Viktor Brimnir Ásmundarson og Eiríkur Már Sævarsson skoruðu tvö stig hver.

Reynsluboltinn Nebosja Knezevic dró vagninn í liði Vestra með 25 stig, fimm stoðsendingar og fimm stolna bolta. Nemanja Knezevic var með 16 stig og átta fráköst og Ingimar Aron Baldursson skoraði 16 stig einnig. Matec Macek var með 13 stig og átta fráköst, Hugi Hallgrímsson 13 stig og fimm stolna bolta, Hilmir Hallgrímsson ellefu stig og Marko Dmitrovic skoraði tíu stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Snæfellingar verma botnsætið að loknum fyrsta leik mótsins án stiga. Næst leika Hólmarar gegn Selfyssingum, föstudaginn 11. október næstkomandi. Sá leikur fer fram á Selfossi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir