Skagamenn fagna marki gegn Levadia á Akranesvelli í gær. Ljósm. gbh.

Unnu stórsigur á Levadia

Piltarnir í 2. flokki ÍA unnu stórsigur á eistneska liðinu Levadia Tallin, 4-0, þegar liðin mættust í fyrstu umferð unglingadeildar UEFA í gær. Leikið var á Akranesvelli.

Skagamenn komust yfir á 22. mínútu þegar Sigurður Hrannar Þorsteinsson, markakóngur Íslandsmótsins, skoraði með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik, en áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi inn í síðari hálfleikinn eftir næsta marki. Á 48. mínútu sendi Marteinn Theodórsson hættulega fyrirgjöf fyrir markið frá hægri. Hann skrúfaði boltann með vinstri fæti inn að markinu þar sem enginn náði til hans og hann hafnaði í fjærhorninu. Glæsilegt mark hjá Marteini.

Skagamenn voru sterkara lið vallarins það sem eftir lifði leiks, sóttu í sig veðrið eftir því sem á leið og sköpuðu sér hættulegri marktækifæri. Gestirnir frá Eistlandi tóku nokkrar rispur en voru almennt í erfiðleikum með að brjótast í gegnum sterka vörn ÍA.

Brynjar Snær Pálsson skoraði eftir hornspyrnu á 70. mínútu og kom Skagamönnum í 3-0 og það var síðan Sigurður Hrannar sem innsiglaði 4-0 sigur ÍA á 85. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Skagamenn standa vel að vígi fyrir seinni leik liðanna, sem fram fer í Eistlandi miðvikudaginn 23. október næstkomandi. Sigurvegarinn úr viðureignum ÍA og Levadia mun sigurvegaranum úr viðureign Derby eða Minsk í næstu umferð sem fram fer í nóvember.

Líkar þetta

Fleiri fréttir