Manuel Rodriguez, þjálfari karlaliðs Skallagríms. Ljósm. úr einkasafni.

„Spennandi uppbygging framundan“

-segir Manuel Rodriguez, þjálfari karlaliðs Skallagríms

Manuel Rodriguez er kominn í Borgarnes og mun þjálfa karlalið Skallagríms í 1. deildinni á komandi vetri. Manuel þekkja Borgnesingar vel. Hann þjálfaði kvennalið Skallagríms frá 2015-2017 með góðum árangri, kom liðinu upp í úrvalsdeild og leiddi það í úrslit bikarsins og í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Hann segist ánægður að vera kominn aftur í Borgarnes.

„Þegar ég fékk símtal í sumar og var boðið að taka að mér þjálfun karlaliðsins þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um,“ segir Manuel í samtali við Skessuhorn. „Ég er mjög þakklátur stjórninni að hafa hugsað til mín í tengslum við þetta einstaka verkefni. Mér fannst ég ekki hafa náð að ljúka verki mínu þegar meistaraflokksráð kvenna ákvað að endurnýja ekki samninginn við mig eftir að hafa náð besta árangri kvennaliðsins frá upphafi. Ég alltaf vissi að einn daginn kæmi ég aftur. Núna er mikið og spennandi uppbyggingarstarf framundan, skemmtilegt verkefni sem ég mun leggja mig allan fram við,“ segir þjálfarinn, sem kveðst fullur tilhlökkunar fyrir komandi tímabili. „Það er alltaf eftirvænting í loftinu þegar keppnistímabilið hefst. Leikmennirnir, stjórnin og aðdánedur hlakka allir til leikjanna.“

Skallagrímsmenn leika sinn fyrsta leik í 1. deildinni á föstudag þegar þeir mæta Álftnesingum á útivelli. Nánar er rætt við Manuel í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir