Gunnhildur Gunnarsdóttir og liðsfélagar hennar í Snæfelli áttu ekki í miklum vandræðum með Breiðablik í fyrstu umferðinni. Ljósm. úr safni/ sá.

Snæfellskonur burstuðu Blika

Snæfell vann stórsigur á Breiðabliki, 76-48, þegar liðin mættust í fyrstu umferð Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Stykkishólmi í gærkvöldi.

Snæfellskonur voru sterkari allan leikinn og það var ekki nema í tvisvar í fyrri hálfleik að gestirnir sýndu einhverja viðspyrnu. Snæfell skoraði fyrstu sjö stigin en gestirnir minnkuðu síðan muninn í 10-7 um miðjan fyrsta leikhluta. Eftir það skoruðu Snæfellskonur 13 stig gegn þremur og leiddu 23-10 eftir upphafsfjórðunginn. Snæfelli gekk illa að koma stigum á töfluna framan af öðrum leikhluta og Breiðablik náði að minnka muninn í fjögur stig í stöðunni 25-21. Snæfell bætti síðan lítið eitt við forskotið og hafði níu stiga forystu í hálfleik, 33-24.

Snæfellskonur komu mjög ákveðnar til síðari hálfleiks, skoruðu tólf stig gegn tveimur fyrstu tvær mínútur hálfleiksins og náðu að slíta sig frá gestunum. Þær héldu áfram að bæta við stigum og leiddu með 17 stigum fyrir lokafjórðunginn, 54-37. Þar voru þær áfram mun öflugri, skoruðu 22 stig gegn 11 og Breiðabliksliðið átti aldrei möguleika. Leiknum lauk með 28 stiga sigri Snæfells, 76-48.

Veera Annika Pirttinen var stigahæst í liði Snæfells með 20 stig. Anna Soffía Lárusdóttir var með 19 stig og níu fráköst og Chandler Smith skoraði 18 stig, gaf ellefu stoðsendingar og tók 7 fráköst. Helga Hjördís Björgvinsdóttir skoraði sex stig og tók sjö fráköst, Gunnhildur Gunnarsdóttir var með fimm stig, ellefu fráköst, fimm stoðsendingar og fjóra stolna bolta, Emese Vida skoraði þrjú stig en tók átta fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði þrjú stig einnig og Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði tvö.

Snæfell er í öðru sæti deildarinnar með tvö stig eftir fyrstu umferðina. Næst mætir ríkjandi Íslandsmeisturum Vals á útivelli miðvikudaginn 9. október.

Líkar þetta

Fleiri fréttir