Gunnhildur Lind Hansdóttir sækir að körfunni í leiknum gegn Haukum. Ljósm. Skallagrímur.

Naumt tap í fyrsta leik

Skallagrímskonur máttu sætta sig við sex stiga tap gegn Haukum, 66-72, eftir jafnan og spennandi baráttuleik í fyrstu umferð Domino‘s deildar kvenna. Leikurinn fór fram í Borgarnesi í gærkvöldi.

Skallagrímskonur höfðu yfirhöndina í upphafi leiks, leiddu mest með tíu stigum í fyrsta leikhluta en höfðu fimm stiga forskot að honum loknum, 22-17. Gestirnir komust betur inn í leikinn í öðrum fjórðungi og leikurinn var hnífjafn síðustu mínútur fyrri hálfleiks. Haukar leiddu með einu stigi í hléinu, 38-39.

Haukakonur höfðu heldur yfirhöndina í þriðja leikhluta en Skallagrímsliðið fylgdi þeim eins og skugginn. Skallagrímskonur náðu forystunni stutta stund um miðjan leikhlutann og svo aftur fyrir lokafjórðunginn, 56-53. Fjórði og síðasti leikhlutinn var jafn og spennandi. Skallagrímskonur voru feti framar, leiddu með tveimur stigum kringum miðjan fjórðunginn. Þá tóku Haukakonur endasprett, náðu forystunni þegar tvær mínútur lifðu leiks og náðu að stela sigrinum á lokamínútunum. Lokatölur voru 66-72, Haukum í vil.

Keira Robinson var stigahæst í liði Skallagrísm með 19 stig, en hún tók sjö fráköst og gaf sjö stöðsendingar að auki. Emilie Hessendal var með 14 stig, 13 fráköst, sjö stoðsendingar og fjóra stolna bolta, Maja Michalska skoraði 12 stig og Árnína Lena Rúnarsdóttir var með tíu stig og sex fráköst.

Stigahæst í liði Hauka var Lovísa Björt Henningsdóttir með 18 stig. Eva Margrét Kristjánsdóttir var með 16 stig og 13 fráköst, Seairra Barrett var með 16 stig og níu fráköst og Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði tólf stig, gaf níu stoðsendingar og tók sex fráköst.

Skallagrímskonur eru eftir fyrstu umferðina í sjötta sæti deildarinnar án stiga. Næst leikur liðið gegn Grindavík miðvikudaginn 9. október. Sá leikur fer einnig fram í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir