Garðar fagnar marki með ÍA í leik gegn Val á Akranesvelli sumarið 2016. Garðar varð markakóngur Pepsi deildarinnar það sumarið með 14 mörk. Ljósm. úr safni/ gbh.

Garðar leggur skóna á hilluna

Knattspyrnumaðurinn Garðar Bergmann Gunnlaugsson hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna. Þetta staðfestir Garðar í samtali við Skessuhorn. „Ég er að flytjast búferlum til Ítalíu og með tilliti til meiðslasögu minnar til síðustu tveggja ára þá þótti mér núna vera hentugur tími til að hengja skóna upp,“ segir hann og bætir því við að hann líti sáttur til baka yfir sinn feril. „Ég er mjög sáttur. Auðvitað eru margir hlutir sem gætu hafa farið betur en það þýðir ekki að lifa í neinni eftirsjá, það er ekki hollt fyrir neinn. Ég lít bara á þetta nýja skref mitt í lífinu sem mína næstu áskorun,“ segir Garðar.

Garðar hóf meistaraflokksferil sinn með ÍA árið 2001 og varð Íslandsmeistari með liðinu sama sumar. Hann lék með liðinu til 2004, eða þangað til hann gekk til liðs við Val. Þaðan lá leiðin í atvinnumennskuna og á árunum 2006 til 2011 lék Garðar með Dunfermline í Skotlandi, IFK Norrköping í Svíþjóð, CSKA Sofiu í Búlgaríu, LASK Linz í Austurríki og SpVgg Unterhaching í Þýskalandi. Þaðan lá leiðin aftur heim á Akranesi árið 2012 og með Skagamönnum lék Garðar þar til á síðasta ári að hann gekk til liðs við Val. Hann gat lítið leikið með Valsmönnum á liðnu sumri vegna meiðsla.

Garðar varð sem fyrr segir Íslandsmeistari með ÍA árið 2001 og bikarmeistari með ÍA 2003, þar sem hann skoraði sigurmarkið í bikarúrslitaleiknum gegn FH. Hann varð einnig bikarmeistari með Val árið 2005.

Hann varð markakóngur Pepsi deildarinnar árið 2016 með 14 mörk fyrir ÍA. Á hans ferli hefur hann skorað alls 58 mörk í 162 leikjum í efstu deild, 21 mark í 46 leikjum í næstefstu deild og 21 mark í 27 leikjum í bikarkeppninni. Hann er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu ÍA með 135 mörk fyrir meistaraflokk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir