Bjarki Steinn Bjarkason lætur vaða á markið. Hann skoraði fyrsta mark leiksins og eina mark Skagamanna sl. laugardag. Ljósm. gbh.

Steinlágu í lokaleiknum

Skagamenn steinlágu gegn Víkingi R., 1-5, þegar liðin mættust í lokaleik Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Akranesi á laugardaginn. Það var hvorki barist við fall né um titla í leiknum á Akranesvelli, en það kom þó ekki í veg fyrir að bæði lið mættu ákveðin til leiks.

Skagamenn voru ákafir í upphafi og komust yfir á 13. mínútu. Bjarki Steinn Bjarkason skoraði fékk boltann á miðlínu, fór framhjá nokkrum varnarmönnum og þrumaði boltanum upp í samskeytin með skoti frá vítateigsboganum. En Skagamenn voru vart hættir að fagna þegar gestirnir voru búnir að jafna. Kwame Quee sendi boltann fyrir markið á 16. mínútu, varnarmönnum ÍA tókst ekki að hreinsa boltann burt og Örvar Eggertsson skoraði með skoti af stuttu færi. Á 23. mínútu skiptu þeir um hlutverk þegar Örvar sendi hnitmiðaða sendingu af vinstri kanti beint á kollinn á Kwame sem skallaði boltann í netið og gestirnir komnir yfir. Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og gestirnir leiddu því 1-2 í hléinu.

Síðari hálfleikur var rúmlega tíu mínútna gamall þegar Víkingsliðið skoraði þriðja mark sitt. Óttar Magnús Karlsson fékk boltann rétt utan vítateigs, rakti hann inn í teiginn og skoraði með góðu skoti í fjærhornið.

Næstu 20 mínúturnar eða svo var leikurinn fremur tíðindalítill, eða allt þar til Kwame skoraði fjórða mark Víkings á 76. mínútu eftir frábæra sendingu inn fyrir vörnina. Það var síðan Ágúst Eðvald Hlynsson sem innsiglaði 1-5 stórsigur Víkings á 89. mínútu. Hann fékk boltann inn fyrir vörnina eftir snögga sógn og lagði hann í nærhornið.

Úrslit leiksins þýða að Skagamenn ljúka leik í 10. sæti deildarinnar með 27 stig, jafn mörg og HK í sætinu fyrir ofan en sjö stigum fyrir ofan Grindavík sem féll. ÍA sigraði sjö leiki í sumar, gerði sex jafntefli og tapaði níu með markatöluna -5. Fimm af sjö sigrum liðsins í deildinni í sumar komu í maímánuði, auk eins jafnteflis. Eftir það þyngdist róðurinn en tveir sigrar og fimm jafntefli skiluðu ÍA 27 stigum og 10. sætinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir