
Guðrún þjálfar Skallagrím
Guðrún Ósk Ámundadóttir hefur verið ráðin þjálfari Skallagríms í meistaraflokki kvenna. Mun hún því stýra liðinu í Domino‘s deildinni á komandi vetri.
Guðrún er 32 ára gömul og uppalin hjá Skallagrími. Hún lék með yngri flokkum félagsins og á að baki fjölda leikja í efstu deild með Skallagrími, Haukum og KR. Á sínum leikmannaferli hefur hún hampað bæði Íslands- og bikarmeistaratitlum.
Guðrún var aðstoðarþjálfari meistaraflokks Skallagríms á síðasta tímabili, auk þess að vera hluti af leikmannahópnum. Þá hefur hún einnig þjálfað yngri flokka Borgarnesfélagsins undanfarin ár. „Ánægja er með komu Guðrúnar í þjálfarastólinn en hún byrjaði að stýra liðinu fyrr í mánuðinum. Hún undirbýr nú öflugan hóp meistaraflokks kvenna af fullum krafti fyrir átök vetrarins,“ segir í tilkynningu kkd. Skallagríms.