Ljósm. úr safni/ glh.

Skellur í síðasta leiknum

Skallagrímsmenn fengu skell í lokaleik 3. deildar karla í knattspyrnu þegar þeir töpuðu 5-0 gegn Reyni S. á útivelli síðastliðinn laugardag.

Elfar Máni Bragason kom Suðurnesjaliðinu yfir á 16. mínútu og Gauti Þorvarðarson bætti öðru marki við á 24. mínútu. Magnús Magnússon skoraði þriðja mark Reynis á 36. mínútu og heimamenn leiddu 3-0 í hálfleik.

Theodór Guðni Haldórsson kom Reyni í 4-0 á 59. mínútu leiksins en það var síðan Hörður Sveinsson sem innsiglaði 5-0 sigur heimamanna á 90. mínútu leiksins.

Borgesingar ljúka keppni í 12. og neðsta sæti 3. deildar karla þetta tímabilið. Þeir áttu erfitt uppdráttar í deildinni þetta sumarið, sigruðu tvo leiki en töpuðu 20 og gerðu ekkert jafntefli. Báðir sigurleikirnir komu snemma á tímabilinu, Borgnesingar sigruðu tvo af fyrstu fimm leikjum sínum hafa síðan þurft að lúta í gras í síðustu 17 leikjunum. Botnsætið er því raunin að þessu sinni og mun Skallagrímur því leika í 4. deild næsta sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir