Ljósm. úr safni/ gbh.

Tap í lokaleiknum

Skagakonur máttu játa sig sigraðar gegn Tindastóli, 4-1, í lokaleik Inkasso deildar kvenna í knattspyrnu. Leikið var á Sauðárkróki á föstudagskvöld. Fyrir leikinn hafði Tindastóll möguleika á að tryggja sér sæti í efstu deild, að því gefnu að úrslit annarra leikja yrðu liðinu hagstæð. Skagakonur sigldu hins vegar lygnan sjó, búnar að bjarga sér frá falli og höfðu ekki að neinu að keppa í deildinni.

Bæði lið mættu ákveðin í leiks og fyrri hálfleikur einkenndist af mikilli baráttu. Tindastólsliðið hafði heldur yfirhöndina en Skagakonur vörðust vel og áttu nokkrar álitlegar sóknir sem tókst þó ekki að nýta. Staðan var því markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Skagakonur lágu áfram til baka í síðari hálfleik og freistuðu þess að beita skyndisóknum þegar færi gáfust. Upp úr einni slíkri skoraði Eva María Jónsdóttir á 63. mínútu og kom ÍA yfir.

Sókn Tindastólsliðsins þyngdist eftir því sem leið á og þær sýndu mátt sinn og megin síðasta korterið eða svo. Bryndís Rut Haraldsdóttir jafnaði metin á 78. mínútu áður en Murielle Tiernan bætti við tveimur mörkum á 80. og 82. mínútu og heimakonur svo gott sem búnar að gera út um leikinn á stuttum leikkafla. Fríða Halldórsdóttir varð síðan fyrir því óláni að skora sjálfsmark skömmu fyrir leikslok og leiknum lauk því með 4-1 sigri Tindastóls.

Skagakonur ljúka keppni í 8. sæti deildarinnar með 19 stig, stigi á eftir Fjölni og Augnabliki í sætunum fyrir neðan en fjórum stigum á undan Grindavík, sem féll úr deildinni. Eftir góða byrjun Skagakvenna í mótinu tók við mjög erfiður kafli þar sem gekk á ýmsu, leikmenn hurfu á braut og liðið skipti um þjálfara. Liðinu tókst hins vegar að bjarga sæti sínu í deildinni í næstsíðustu umferðinni og leikur því aftur í næstefstu deild að ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir