Vignir Snær Stefánsson fagnar eftir að hafa komið Ólafsvíkingum yfir í upphafi leiks. Ljósm. af.

Kvöddu mótið með stæl

Víkingur Ó. sigraði Njarðvík í lokaleik Inkasso deildar karla í knattspyru á Ólafsvíkurvelli á laugardag. Leikurinn var mikill markaleikur og þegar lokaflautan gall höfðu Ólafsvíkingar skorað fjögur mörk gegn tveimur mörkum gestanna.

Heimamenn voru mun sterkari í fyrri hálfleik. Þeir komust yfir strax á 5. mínútu leiksins þegar Vignir Snær Stefánsson skoraði eftir hornspyrnu Grétars Snæs Gunnarssonar. Á 23. mínútu bættu þeir öðru marki við og var það af dýrari gerðinni. Harley Willard fékk nægan tíma á miðjum vallarhelmingi gestanna. Hann sneri inn á völlinn og smellti boltanum upp í samskeytin af 25 metra færi. Glæsilegt mark hjá Harley.

Víkingsliðið réði lögum og lofum á vellinum undir lok fyrri hálfleiks og bæði Harley og Vignir voru nálægt því að bæta við marki fyrir heimamenn. Á 42. mínútu kom síðan þriðja mark Ólafsvíkinga. Harley fór illa með varnarmann Njarðvíkinga áður en hann sendi fyrir markið á Martin Cristian Kuittinen sem átti ekki í vandræðum með að skalla boltann í netið.

Staðan var 3-0 í hálfleik en gestirnir voru þó ekki af baki dottnir. Á 54. mínútu minnkuðu þeir muninn, þegar Kenneth Hogg skoraði með laglegum skalla eftir sendingu Stefáns Birgis Jóhannessonar. Stefán skoraði síðan sjálfur á 62. mínútu þegar hann tók boltann viðstöðulaust og þrumaði upp í markvinkilinn. Glæsilegt mark hjá Stefáni og Njarðvíkingar búnir að hleypa spennu í leikinn.

Ólafsvíkingar voru hins vegar fljótir að slökkva í vonum gestanna. Strax í næstu sókn fór Guðmundur Magnússon illa með varnarmenn Njarðvíkinga, sem endaði með því að hann var felldur í teignum og vítaspyrna dæmd. Harley fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi framhjá Brynjari Atla Bragasyni í markinu, sem veðjaði á rétt horn en var aldrei nálægt því að verja.

Ólafsvíkingar voru betra lið vallarins síðasta hálftímann og áttu nokkrar ágætis tilraunir til að bæta við marki seint í leiknum sem fóru forgörðum. En það kom ekki að sök, Víkingur kvaddi Íslandsmótið að þessu sinni með 4-2 sigri á heimavelli.

Ólafsvíkingar ljúka keppni í 4. sæti deildarinnar með 34 stig, jafn mörg og Keflavík og Þór í sætunum fyrir neðan en sex stigum á eftir Leikni. Liðið sigraði níu leiki, gerði sjö jafntefli og tapaði sex að þessu sinni og leikur aftur í næstefstu deild að ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir