Einar Örn Guðnason var stigahæstur karla á ÍM í bekkpressu. Ljósm. úr safni.

Sneru heim með gullverðlaun

Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum var haldið í Garðabæ helgina 14.-15. september, sem og Íslandsmeistaramótið í bekkpressu. Kraftlyftingafélag Akraness átti tvo fulltrúa á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, sem báðir fóru með sigur af hólmi í sínum flokkum.

Kristín Þórhallsdóttir fagnaði sigri í 84 kg flokki kvenna. Hún lyfti 165 kg í hnébeygju, 80 kg í bekkpressu og 172,5 kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur var 417,5 kg sem skilaði henni 649,5 IPF stigum.

Alexander Örn Kárason varð hlutskarpastur í 93 kg flokki karla. Hann lyfti 230 kg í hnébeygju, 170 kg í bekkpressu og 272,5 kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur var 672,5 kg sem skilaði 630,9 IPF stigum. Alexander er fæddur árið 1998 og bekkpressan hans var nýtt Íslandsmet í unglingaflokki, sem og réttstöðulyfta hans. Samanlagður árangur hans var sömuleiðis Íslandsmet í unglingaflokki.

Á Íslandsmeistaramótinu í bekkpressu átti Kraftlyftingafélag Akraness einn fulltrúa, Einar Örn Guðnason. Hann lyfti 240 kg og sigraði í 105 kg flokki karla. Einar var jafnframt stigahæsti karlinn í mótinu með 612,9 IPF stig.

Líkar þetta

Fleiri fréttir