Einar Örn Guðnason var stigahæstur karla á ÍM í bekkpressu. Ljósm. úr safni.

Sneru heim með gullverðlaun

Íslandsmeistaramótið í klassískum kraftlyftingum var haldið í Garðabæ helgina 14.-15. september, sem og Íslandsmeistaramótið í bekkpressu. Kraftlyftingafélag Akraness átti tvo fulltrúa á Íslandsmeistaramótinu í klassískum kraftlyftingum, sem báðir fóru með sigur af hólmi í sínum flokkum.

Kristín Þórhallsdóttir fagnaði sigri í 84 kg flokki kvenna. Hún lyfti 165 kg í hnébeygju, 80 kg í bekkpressu og 172,5 kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur var 417,5 kg sem skilaði henni 649,5 IPF stigum.

Alexander Örn Kárason varð hlutskarpastur í 93 kg flokki karla. Hann lyfti 230 kg í hnébeygju, 170 kg í bekkpressu og 272,5 kg í réttstöðulyftu. Samanlagður árangur var 672,5 kg sem skilaði 630,9 IPF stigum. Alexander er fæddur árið 1998 og bekkpressan hans var nýtt Íslandsmet í unglingaflokki, sem og réttstöðulyfta hans. Samanlagður árangur hans var sömuleiðis Íslandsmet í unglingaflokki.

Á Íslandsmeistaramótinu í bekkpressu átti Kraftlyftingafélag Akraness einn fulltrúa, Einar Örn Guðnason. Hann lyfti 240 kg og sigraði í 105 kg flokki karla. Einar var jafnframt stigahæsti karlinn í mótinu með 612,9 IPF stig.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira