Stefán Teitur Þórðarson sendir aukaspyrnu yfir vegginn og efst upp í hornið. Ljósm. gbh.

Jafnt á Akranesvelli

ÍA og Grindavík skildu jöfn, 1-1, þegar liðin mættust í 21. umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Akranesvelli í gær. Skagamenn sigldu lygnan sjó um miðja deild fyrir leikinn, en Grindvíkingar þurftu á stigi að halda til að eiga minnsta möguleika á að halda sæti sínu í deildinni.

Bæði lið voru varkár í upphafi og leikurinn fremur tíðindalítill framan af, eða allt þar til ÍA komst yfir á 24. mínútu. Stefán Teitur Þórðarson tók aukaspyrnu rétt utan við vítateigsbogann, lyfti boltanum yfir varnarvegginn og efst upp í hægra hornið. Glæsilegt mark hjá Stefáni og lifnaði heldur yfir leiknum eftir það. Skagamenn voru nálægt því að bæta við öðru marki skömmu síðar þegar þeir fengu tvö góð tækifæri eftir hornspyrnu. Grindvíkingar vöknuðu sömuleiðis til lífsins án þess þó að skapa sér nein alvöru marktækifæri.

Gestirnir voru líflegri í upphafi síðari hálfleiks. Þeir voru nálægt því að jafna á 56. mínútu en Einar Logi Einarsson bjargaði á marklínu. Eftir því sem leið á leikinn féll Skagaliðið lengra til baka og freistaði þess að beita skyndisóknum. Grindvíkingar sóttu meira, áttu nokkrar álitlegar sóknir en engin dauðafæri, þar til jöfnunarmarkið kom á 85. mínútu. Löng aukaspyrna var send inn á teiginn þar sem Josip Zeba var aleinn og óvaldaður og skallaði boltann í bláhornið. Grindvíkingar sóttu stíft undir lokin, áttu skot rétt framhjá markinu og Skagamenn björguðu svo á línu í uppbótartíma. En fleiri mörk voru ekki skoruð og niðurstaðan því jafntefli.

ÍA situr í 6. sæti deildarinnar með 26 stig, jafn mörg og HK í sætinu fyrir ofan en stigi á undan Val og Víkingi R. Næsti leikur ÍA er útileikur gegn HK sunnudaginn 22. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir