Sótt að Sigrúnu Evu Sigurðardóttur í leiknum gegn Aftureldingu. Ljósm. gbh.

Skagakonur öruggar

ÍA tryggði sæti sitt í Inkasso deild kvenna í knattspyrnu á föstudag. Skagakonur sigruðu Aftureldingu 2-0 á heimavelli í næstsíðustu umferð deildarinnar og eru þar með fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Skagakonur byrjuðu leikinn af krafti og komust yfir strax á 6. mínútu þegar Íris Dögg Gunnarsdóttir, markvörður Aftureldingar, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Sigrún Eva Sigurðardóttir tók glæsilega hornspyrnu frá vinstri, skrúfaði boltann inn að markinu á nærstöngina. Íris Dögg steig á móti boltanum og ætlaði að slá hann frá en hitti hann ekki nógu vel svo hann hafnaði í netinu.

Skagakonur höfðu yfirhöndina það sem eftir lifði fyrri hálfleiks, sýndu á köflum ágæta sóknartilburði og sköpuðu sér nokkur fín færi sem ekki tókst að nýta. Þær léku sömuleiðis þétta vörn svo gestirnir úr Mosfellsbæ komust lítt áleiðis og tókst ekki að skapa mikið.

ÍA liðið var áfram sterkara í síðari hálfleik, var meira með boltann og náði að skapa sér ágætis færi. Afturelding sótti þó heldur í sig veðrið og átti nokkrar álitlegar sóknir en tókst ekki að komast á blað. Skagakonur gerðu svo út um leikinn á 82. mínútu. Erla Karitas Jóhannesdóttir átti þá góða fyrirgjöf inn í teiginn frá hægri. Boltinn fór framhjá varnarmönnum Aftureldingar og á Védísi Öglu Reynisdóttur sem skoraði með föstu skoti úr vítateignum. Var þetta fyrsta mark Védísar fyrir meistaraflokk en ef til vill hefði Íris Dögg í marki Aftureldingar átt að gera betur.

Eftir sigurinn er ÍA í 6. sæti með 19 stig, jafn mörg og Augnablik og Fjölnir í sætunum fyrir neðan. En það sem mestu máli skiptir er að liðið hefur fjögurra stiga forskot á Grindavík sem situr í fallsæti þegar einn leikur er eftir. Skagakonur munu því leika áfram í Inkasso deildinni að ári. Lokaleikur ÍA í sumar er gegn Tindastóli á föstudaginn, 20. september. Hann fer fram á Sauðárkróki.

Líkar þetta

Fleiri fréttir