Ljósm. úr safni.

Sigur í Mosfellsbænum

Víkingur Ó. lagði Aftureldingu, 1-0, þegar liðin mættust í næstsíðustu umferð Inkasso deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Varmárvelli í Mosfellsbæ á laugardaginn.

Heimamenn voru heldur sterkari í fyrri hálfleik. Þeir léku með vindinn í bakið, en nokkuð hvasst var á Varmárvelli og setti það svip sinn á leikinn. Afturelding fékk dauðafæri strax á 5. mínútu leiksins þegar Ásgeir Örn Arnþórsson slapp einn í gegn en Franko Lalic varði vel frá honum í marki Víkings. Boltinn barst síðan aftur á Ásgeir sem skaut honum yfir markið. Afturelding skapaði sér nokkur ágætis færi fram að hálfleiknum en Ólafsvíkingar fundu ekki taktinn í sókninni.

Það bætti heldur í vindinn í síðari hálfleik og virtist það slá heimamenn nokkuð út af laginu. Ólafsvíkingar komust betur inn í leikinn, án þess þó að skapa sér mikið af færum. Þeir fengu tvö ágætis tækifæri úr aukaspyrnu og langskoti snemma í síðari hálfleiknum en tókst ekki að koma boltanum í netið. Eina mark leiksins skoraði Harley Willard á 65. mínútu, með skoti fyrir utan vítateig. Jon T. Martinez, markvörður Aftureldingar, var í boltanum en náði ekki að verja skotið. Víkingur þar með kominn með 0-1 forystu sem þeir héldu allt til leiksloka.

Víkingur situr í 6. sæti deildarinnar með 31 stig, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir næstu liðum fyrir ofan. Lokaleikur Ólafsvíkinga í deildinni í sumar er heimaleikur gegn Njarðvíkingum laugardaginn 21. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir