Sigurður Hrannar Þorsteinsson er markakónur 2. flokks og leikmaður ÍA. Ljósm. mm.

„Markmiðið hjá mér er að sjálfsögðu að ná alla leið í fótboltanum“

Gengi strákanna í 2. flokki karla hjá ÍA hefur verið ævintýralega gott á liðnum misserum. Þrátt fyrir að enn séu tveir leikir eftir af Íslandsmótinu hefur liðið tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn og lyftir bikar á loft 14. september. Í 2. flokki spila leikmenn 17 til 19 ára. Skagaliðið þjálfar tvíeykið Sigurður Jónsson og Elinbergur Sveinsson. Þetta er annað árið í röð sem lið þeirra ber sigur úr býtum á Íslandsmótinu svo engum blöðum er um það að fletta að þeir eru að ná fantagóðum árangri og ekki síður að framtíðin er björt fyrir Skagamenn í boltanum. Markahæstur í liði Skagamanna í sumar og raunar yfir landið allt er framherjinn Sigurður Hrannar Þorsteinsson. Nú þegar tveir leikir eru eftir af mótinu hefur Siggi skorað 20 mörk, en sá sem er næstmarkahæstur hefur gert 15. Um leið er þetta Íslandsmet í markaskorun og blaðamanni Skessuhorns dylst ekki að þessi 19 ára fríski knattspyrnumaður ætlar sér að bæta um betur í þeim tveimur leikjum sem eftir eru af mótinu.

„Þetta er búið að vera ævintýralega gott sumar hjá liðinu og sjálfur er ég býsna ánægður með mitt gengi,“ segir Sigurður Hrannar. Frá því í mars hefur hann æft með meistaraflokki og þá undir stjórn þeirra Jóhannesar Karls Guðjónssonar og Sigurðar Jónssonar. Sjálfur hefur hann verið á bekknum í sumar með meistaraflokksliðinu og á því enn eftir að láta ljós sitt skína í í efstu deild. Meðal þeirra sem æfa með honum hjá meistaraflokki er þremur árum eldri bróðir hans, Steinar Þorsteinsson. Aðspurður segir Sigurður Hrannar að hann hafi æft fótbolta frá því hann var sex ára. „Þá bjuggum við fjölskyldan uppi á Hagamel í Hvalfjarðarsveit en foreldrar mínir eru báðir aldir upp í sveitinni. Við fluttum svo á Skagann þegar ég var tólf ára og þá um leið varð auðveldara að sækja bæði æfingar og leiki.“

Nánar í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir