Ljósm. úr safni/ gbh.

Tap í fallbaráttuslag

Skagakonur urðu af mikilvægum stigum í botnbaráttu Inkasso deildar kvenna í knattsyrnu á föstudag. Þær töpuðu 2-0 í hörkuleik og fallbaráttuslag gegn Augnabliki á útivelli.

Leikurinn bar þess merki að bæði liðin eru að berjast fyrir veru sinni í deildinni. Barátan var mikil og ljóst að hvorugt liðið ætlaði að gefa tommu eftir.

Augnablikskonur fengu algjöra óskabyrjun þegar þær komust yfir strax á 2. mínútu leiksins með marki frá Birtu Birgisdóttur, en náði ekki að skapa sér mörg hættuleg færi gegn ÍA liðinu, sem lék sterka vörn. Skagakonur engu nokkur álitleg marktækifæri í fyrri hálfleik sem ekki tókst að nýta og staðan því 1-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik sóttu Skagakonur heldur í sig veðrið sóknarlega og freistuðu þess að jafna metin. Þær áttu nokkrar ágætar tilraunir en tókst ekki að koma boltanum í netið. Augnablikskonur féllu lengra og lengra til baka eftir því sem leið á leikinn og beittu skyndisóknum þegar færi gafst. Á lokamínútu leiksins tókst Hildi Lilju Ágústsdóttur að skora annað mark Augnabliks og úrslit leiksins þar með ráðin.

Skagakonur sitja í 7. sæti deildarinnar með 16 stig, tveimur stigum á eftir Augnabliki en með jafn mörg og Fjölnir í sætinu fyrir neðan og stigi á undan Grindavík sem situr í fallsæti. Botnbaráttan er því galopin þegar tveir leikir eru eftir. Næst mæta Skagakonur Aftureldingu á Akranesvelli föstudaginn 13. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir