Ljósm. úr safni/ af.

Heppnin ekki með Ólafsvíkingum

Víkingur Ó. beið lægri hlut gegn liði Magna á heimavelli, 1-2, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu í gær. Sigurinn var gestunum frá Grenivík mikilvægur, en þeir eru í harðri fallbaráttu nú í lok mótsins. Víkingur siglir hins vegar lygnan sjó um miðja deildina.

Ólafsvíkingar voru nálægt því að komast yfir strax á 9. mínútu þegar gestirnir björguðu í tvígang á línu eftir hornspyrnu. Leikmenn Víkings voru öflugri í fyrri hálfleik, áttu nokkrar góðar sóknir og ógnuðu marki gestanna án þess þó að skapa sér nein dauðafæri. Það var því gegn gangi leiksins þegar Magni komst yfir á 40. mínútu leiksins. Louis Aaron Wardle vann þá boltann á miðjunni og gestirnir brunuðu upp fjórir gegn tveimur varnarmönnum. Aron var ekkert að deila með sér heldur keyrði alla leið og skoraði með skoti í fjærhornið niðri.

Víkingsliðið sótti þungt í upphafi síðari hálfleiks og freistuðu þess að jafna. Vignir Snær Stefánsson var hársbreidd frá því að jafna eftir klukkustundar leik þegar hann skrúfaði boltann í stöngina eftir laglegan undirbúning Harley Willard og Sorie Barrie. Á 65. mínútu dró síðan til tíðinda þegar Víkingi var dæmd vítaspyrna. Harley fór á punktinn og skoraði af öryggi með góðu skoti í hægra hornið niðri.

Víkingar voru sterkari næsta korterið en náðu ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri. En það voru gestirnir sem skoruðu lokamark leiksins og það gerði Gunnar Örvar Stefánsson á 81. mínútu. Ólafsvíkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin það sem eftir lifði leiks. Vidmar Miha átti bylmingsskot í þverslána á lokamínútu leiksins og sóttu hart að marki gestanna síðustu andartökin en allt kom fyrir ekki. Heppnin var ekki með Ólafsvíkingum í liði í gær og það voru því gestirnir sem fóru með sigur af hólmi. Magni sigraði 1-2.

Víkingur hefur 28 stig og situr í 7. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Fram í en með sex stiga forskot á Aftureldingu í sætinu fyrir neðan. Níu stig eru upp í 2. sætið og níu stig sömuleiðis niður í fallsæti. Ólafsvíkingar hafa því ekkert að spila upp á nema heiðurinn í síðustu tveimur leikjum sumarsins. Næst leika þeir á laugardaginn, 14. september næstkomandi, þegar þeir mæta Aftureldingu á útivelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir