Ljósm. úr safni/ gbh.

Töpuðu gegn erkifjendunum

Skagamenn máttu sætta sig við 2-0 tap gegn KR þegar liðin mættust í 19. umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu. Leikið var í Reykjavík í gær.

KR-ingar stjórnuðu ferðinni í fyrri hálfleik, héldu boltanum vel og ógnuðu marki ÍA án þess þó að skapa sér nein alvöru marktækifæri. Skagamenn lágu til baka og freistuðu þess að sækja hratt þegar færi gafst.

Á 35. mínútu fengu KR-ingar aukaspyrnu skammt utan teigs. Pálmi Rafn Pálmason rúllaði boltanum til hliðar á Óskar Örn Hauksson sem skoraði með þrumuskoti neðst í nærhornið. Litlu munaði að Skagamenn jöfnuðu metin úr aukaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks en skot Tryggva Hrafns Haraldssonar smaug rétt framhjá markinu.

Skagamenn lágu til baka framan af fyrri hálfleik og virkuðu ekki líklegir til afreka. Eftir tvær breytingar eftir rúmlega klukkustundar leik lifnaði þó yfir leik ÍA. Þeir fækkuðu í vörninni og freistuðu þess að jafna metin. Á 74. mínútu fengu Skagamenn heldur betur tækifæri til að skora. Stefán Teitur Þórðarson átti langt innkast sem Marcus Johansson skallaði að marki. Beitir Ólafsson var illa staðsettur í marki KR og mátti hafa sig allan við að verja. Boltinn barst á Steinar Þorsteinsson sem skaut að marki en KR-ingar komust fyrir skotið. Boltinn barst þá á Viktor Jónsson sem skaut yfir markið og heimamenn sluppu heldur betur með skrekkinn.

KR-ingar innsigluðu síðan sigurinn á 87. mínútu. Kristinn Jónsson vann boltann fyrir utan teig Skagamanna og þrumaði honum í þverslána og inn. Leiknum lauk því með 2-0 sigri KR.

ÍA situr í 8. sæti deildarinnar með 25 stig, rétt eins og Valur, HK og Víkingur R. í sætunum fyrir ofan og Fylkir í sætinu fyrir neðan. Næst leika Skagamenn gegn Grindvíkingum sunnudaginn 15. september næstkomandi. Sá leikur fer fram á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir