Ljósm. glh.

Skallagrímsmenn fallnir

Borgnesingar eru fallnir úr 3. deild karla í knattspyrnu eftir 1-4 tap gegn Hetti/Hugin þegar liðin mættust í 19. umferð á laugardaginn. Leikurinn fór fram á Skallagrímsvelli í Borgarnesi.

Ivan Bubalo kom gestunum að norðan yfir strax á 8. mínútu leiksins og hann bætti öðru marki við á 38. mínútu. Cristofer Rolin minnkaði muninn fyrir Skallagrím á 43. mínútu en á lokamínútu fyrri hálfleiks fengu gestirnir vítaspyrnu. Ivan fór á punktinn, skoraði þriðja mark gestanna og var þar með kominn með þrennu í fyrri hálfleik. Það var síðan Knut Erik Myklebust sem innsiglaði 1-4 sigur Hattar/Hugins á 54. mínútu. Helst tíðinda það sem eftir lifði leiks var að Þórði Elí Þorvaldssyni var vikið af velli á lokamínútu leiksins og Skallagrímsmenn því manni færri lokaandartök leiksins.

Borgnesingar sitja í botnsæti deildarinnar með sex stig og eru fallnir. Ellefu stig eru upp úr fallsætunum en aðeins þrír leikir eftir í mótinu og örlög Skallagríms því ráðin. Næst leikur liðið gegn Kórdrengjunum á útivelli laugardaginn 7. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir