Ljósm. úr safni/ þa.

Inn vildi boltinn ekki

Víkingur Ó. og Fram gerðu markalaust jafntefli þegar liðin mættust í 19. umferð Inkasso deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Framvelli á föstudagskvöld.

Leikurinn fór fremur rólega af stað en þegar leið á fyrri hálfleikinn voru það Ólafsvíkingar sem sköpuðu sér hættulegri færi. Guðmundur Magnússon átti gott skot að marki á 35. mínútu úr teignum en Hlynur Örn Hlöðversson í marki Fram varði vel. Guðmundur var aftur á ferðinni stuttu síðar úr ennþá betra færi en aftur varði Hlynur frá honum. Heimamenn áttu síðan gott skot að marki úr aukaspyrnu seint í fyrri hálfleik en Franko Lalic varði glæsilega í marki Ólsara.

Mikill hiti var í leikmönnum í upphafi síðari hálfleiks en lítið um opin marktækifæri. Eftir því sem leið á fengu þó bæði lið sín tækifæri til að skora. Framarinn Fred Saraiva skaut yfir úr góðu færi á 68. mínútu og Guðmundur var síðan nálægt því að koma Víkingi yfir með laglegri bakfallsspyrnu. Seint í leiknum komst Grétar Snær Gunnarsson einn í gegn en Hlynur varði frá honum. Í næstu sókn létu leikmenn Víkings skotin dynja á marki Framara en inn vildi boltinn ekki. Hlynur varði trekk í trekk og bjargaði stigi fyrir heimamenn.

Víkingur Ó. situr í 6. sæti deildarinnar með 28 stig, þremur stigum á eftir Keflavík en stigi á undan Fram. Næsti leikur Ólafsvíkinga er heimaleikur gegn Magna sunnudaginn 8. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir