Quentin og Jamie í kvöldsólinni við bryggjuna á Króksfjarðarnesi. Ljósm. sm.

Í sambúð við bryggjuna á Króksfjarðarnesi

Parið Quentin Monnier og Jamie Lai Boon Lee hittust fyrst í smalamennsku hjá Bergsveini Reynissyni, bónda á Gróustöðum í Reykhólasveit. Hingað til lands koma þau úr sitthvorri áttinni, hann frá Frakklandi en hún er af kínverskum ættum en alin upp í Bandaríkjunum. Þótt þau hafi lítið kynnst fyrst þegar leiðir þeirra lágu í saman í smalamennsku þá átti það eftir að breytast nokkrum mánuðum síðar á sömu slóðum. Í dag búa Quentin og Jamie saman í Króksfjarðarnesi þar sem fréttaritari Skessuhorns náði tali af parinu.

 

Tók fjórar grásleppuvertíðar í röð

Quentin Monnier er frá Angers í Frakklandi en hann kom til Íslands fyrir fjórum árum áhugasamur um að kynnast landi okkar og menningu.

„Ég vildi ferðast, kom hingað af því að ég var forvitinn um eldfjöll og einangruð svæði og hef mikinn áhuga á náttúrunni. Ég hafði ekki áhuga á að vera í borginni heldur vildi ég sjá sveitirnar og hvernig fólk lifir í dreifbýlinu. Landslagið eitt og sér dugar ekki,“ segir Quentin sem byrjaði dvöl sína sem sjálfboðaliði á Gróustöðum hjá Bergsveini Reynissyni, eða Begga eins og hann er jafnan kallaður. Quentin hefur verið í sveitinni meira og minna eftir það með búsetu við bryggjuna í Króksfjarðarnesi. Sjómennsku hafði Quentin ekki kynnst fyrr en hann fór að stunda sjóinn með Begga sem gerir út á bláskel frá Króksfjarðarnesi. Fyrir þremur árum komst Quentin einnig á grásleppu með feðgunum Gísla Baldurssyni og Baldri Gíslasyni í Búðardal. Þeir feðgar hafa gert út þrjá báta svo Quentin hefur náð þremur vertíðum í röð með þeim feðgum. Í ár bætti hann um betur og tók til viðbótar eina vertíð með Hlyni Gunnarssyni frá Hólmavík og náði því fjórum vertíðum í beit. Líklega er það met í sjósókn á þessum veiðum.

 

Lærði haf- og strandveiðistjórnun á Ísafirði

Jamie Lai Boon Lee, unnusta Quentin, er af kínverskum uppruna en fæddist í San Francisco í Bandaríkjunum. Í uppeldinu segist Jamie hafa fengið góða blöndu af amerískri og kínverskri menningu. „Móðurmálin mín eru tvö; enska og kínverska eða Cantonese. Ég bjó í Hong Kong frá þriggja til sextán ára aldurs og grunnskólanámið fór því fram á Cantonese. Einhvern tímann heyrði ég þá speki að það tungumál sem þú notar til að telja er þitt móðurmál. Ég nota ennþá Cantonese þegar ég tel,“ segir Jamie sem einnig hefur lært talsvert í íslensku á dvöl sinni hér á landi.

Jamie kom til Íslands til að stunda nám í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði og útskrifaðist þaðan í haf- og strandsvæðastjórnun; Master of Resource Management. Þótt San Francisco í Kaliforníu sé við strandlengju ólst Jamie ekki upp við sjávarmenningu og þekkti lítið til.

 

Quentin og Jamie voru til viðtals í 34. tlb. Skessuhorns sem kom út sl. miðvikudag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir