Kári gerði jafntefli í Garðinum

Knattspyrnufélagið Kári og Víðir skyldu jöfn í háspennuleik þegar liðin áttust við í 17. umferð annarrar deildar í knattspyrnu í gær. Leikið var á Nesfisk-vellinum í Garði. Skagamenn skoruðu fyrsta mark leiksins. Á 25. mínútu kom Eggert Kári Karlsson sínu liði yfir. Héldu þeir forystunni út fyrri hálfleik og leiddu í hléi.

Í síðari hálfleik var Eggert aftur á ferðinni. Þremur mínútum eftir að leikurinn var flautaður aftur í gang bætti Eggert Kári sínu öðru marki við og kom Skagamönnum í 2-0. Heimamenn náðu þá að bíta frá sér. Á 50. mínútu skoraði Gylfi Örn Á. Öfjörð fyrir Víðismenn og minnkaði muninn í eitt mark. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka bætti Atli Freyr Ottesen Pálsson öðru marki Víðis við og jafnaði þar með metin. Ekki komu fleiri mörk í leiknum og skildu liðin jöfn.

Káramenn hafa náð að laga stöðu sína í botnbaráttunni með góðum úrslitum í síðustu umferðum Íslandsmótsins. Þeir eru sem stendur í 10. sæti með 18 stig, þremur stigum á undan KFG í næstneðsta sæti og þremur stigum á eftir Völsungi í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur Kára verður á sunnudag gegn Dalvík/Reynir fyrir norðan.

Líkar þetta

Fleiri fréttir