Ljósm. úr safni/ gbh.

Skagakonur lutu í gras

Skagakonur töpuðu gegn Haukum, 4-1, þegar liðin mættust í 14. umferð Inkasso deildar kvenna í knattspyrnu. Leikið var í Hafnarfirði í gærkvöldi.

Leikurinn byrjaði fjörlega. Haukar áttu skot í stöngina og út áður en ÍA náði forystunni á 12. mínútu leiksins. Rangstöðugildra Hauka brást þegar hár bolti var sendur inn fyrir vörnina á Erlu Karitas Jóhannesdóttur. Hún hafði nægan tíma til að senda boltann fyrir á Andreu Magnúsdóttir sem skoraði auðveldlega með skalla.

Haukar jöfnuðu metin á 21. mínútu eftir mistök Anítu Ólafsdóttur í marki ÍA. Sæunn Björnsdóttir lyfti boltanum inn á teiginn. Enginn leikmaður komst í boltann, sem skoppaði einhvern veginn undir Anítu og í netið. Aðeins tveimur mínútum síðar náðu Haukar forystunni eftir laglega sókn. Langur bolti var sendur út úr vörninni á Töru Björk Gunnarsdóttur. Hún sendi boltann áfram á Viennu Behnke sem kom sér fram fyrir varnarmann og skoraði.

Skagakonur tóku að pressa nokkuð ákveðið á Haukaliðið, náðu á köflum ágætu spili en gekk illa að skapa sér marktækifæri. Eftir langa sókn ÍA á 42. mínútu náðu Haukar boltanum, sendu hann á Sierru Marie Lelil sem fór framhjá varnarmanni og lagði boltann fyrir Kristínu Fjólu Sigþórsdóttur sem skoraði. Staðan í hálfleik því 3-1 fyrir Hauka.

Það var síðan snemma í síðari hálfleik sem heimaliðið afgreiddi leikinn þegar Vienna skoraði sitt annað mark þegar hún potaði boltanum í netið eftir sendingu fyrir markið.

Eftir fjórða mark Hauka róaðist leikurinn nokkuð. Skagakonur náðu að skapa sér nokkur ágætis tækifæri sem ekki tókst að nýta og því fór sem fór. Leiknum lauk með 4-1 sigri Hauka.

ÍA situr í 6. sæti deildarinnar með 16 stig, stigi meira en Grindavík í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum á eftir Aftureldingu í sætinu fyrir ofan.

Næsti leikur Skagakvenna er gegn Þrótti R. föstudaginn 23. ágúst næstkomandi. Hann verður leikinn á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir