Ljósm. úr safni/ af.

Tap í baráttuleik

Víkingur Ó. tapaði fyrir Keflavík með tveimur mörkum gegn einu þegar liðin mættust í Inkasso deild karla í knattspyrnu á föstudagskvöld. Leikið var suður með sjó. Ólafsvíkingar lentu í smá brasi á leið sinnit til Keflavíkur því ekið var á rútu þeirra þar sem hún stóð kyrrstæð á bílastæði í Borgarnesi. Þurftu liðsmenn Víkings að bíða eftir nýrri rútu sem nemur einum fótboltaleik, eða í um 90 mínútur.

Mikil barátta einkenndi upphafsmínútur leiksins en Ólafsvíkingar voru heilt yfir sterkari og fengu tvö ágætis tækifæri til að komast yfir. En á 23. mínútu dró til tíðinda. Keflvíkingar fengu vítaspyrnu eftir að Emir Dokara braut á Þorra Má Þórissyni í teignum. Adolf Mtasingwa Bitegeko fór á punktinn og skoraði með skoti efst í hægra markhornið.

Ólafsvíkingar voru ekki af baki dottnir og héldu áfram að sækja. Þeir voru nálægt því að jafna aðeins tveimur mínútum síðar en heimamenn björguðu á línu eftir mikið at í teignum.

Á 30. mínútu fengu þeir síðan vítaspyrnu eftir að brotið var á Vidmar Miha í vítateig Keflvíinga. Harley Willard tók spyrnuna, skoraði af miklu öryggi og jafnaði metin í 1-1 og þannig var staðan í hálfleik.

Keflvíkingar voru heldur sprækari framan af síðari hálfleik, en leikurin einkenndist þó áfram af töluverðum barningi. Aðstæður spiluðu þar stórt hlutverk, en það var heldur hvasst í Keflavík þegar leikurinn fór fram. Magnús Þór Magnússon var nálægt því að koma heimamönnum yfir á 68. mínútu þegar hann átti skot af löngu færi sem fór í þverslá og yfir. Stuttu síðar skoraði Dagur Ingi Valsson sigurmark leiksins. Hann fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Ólafsvíkinga, fór framhjá einum varnarmanni og skoraði með þéttingsföstu skoti í hornið niðri.

Litlu munaði að Ólafsvíkingar jöfnuðu strax í næstu sókn. Sorie Barrie átti þá skot úr teignum sem Sindri Kristinn Ólafsson í marki heimamanna varði í stöngina og aftur fyrir endamörk. Var þetta síðasta alvöru marktækifæri leiksins og lokatölur því 2-1, Keflvíkingum í vil.

Víkingur Ó. hefur 24 stig í 7. sæti deildarinnar þegar 17 leikir hafa verið spilaðir. Liðið er stigi á eftir Keflvíkingum en hefur þriggja stiga forskot á Þrótt í sætinu fyrir neðan. Næst leika Ólafsvíkingar gegn toppliði Fjölnis föstudaginn 23. ágúst næstkomandi. Sá leikur fer fram í Ólafsvík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir