Skagamenn hafa ekki náð sér almennilega á strik að undanförnu eftir frábæra byrjun í Íslandsmótinu. Ljósm. úr safni/ gbh.

Sex vikur án sigurs

Skagamenn máttu játa sig sigraða gegn Stjörnunni á útivelli, 3-1, þegar liðin mættust í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Var þetta fjórða tap ÍA í röð, en síðasti sigurleikur liðsins kom á móti Fylki laugardaginn 6. júlí.

Skagamenn voru nálægt því að komast yfir strax í upphafi leiks þegar Hörður Ingi Gunnarsson átti gott skot úr vítateignum eftir innkast Stefáns Teits Þórðarsonar, en Haraldur Björnsson í marki Stjörnunnar varði vel.

Heimamenn komust yfir á 25. mínútu leiksins, þegar Sölvi Snær Guðbjargarson skoraði með skoti utan teigs sem fór af Halli Flosasyni og þaðan í stöngina og inn. Eftir markið náði Stjarnan undirtökunum á vellinum og stjórnaði leiknum. Skagamenn lágu til baka og freistuðu þess að sækja hratt en gekk illa að skapa sér opin marktækifæri. Engu að síður tókst þeim að jafna metin á lokamínútu fyrri hálfleiks. Aron Kristófer Lárusson skoraði þá glæsilegt mark, beint úr hornspyrnu, þar sem hann skrúfaði boltann í fjærhornið. Staðan því 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hléinu.

Stjörnumenn náðu forystunni á nýjan leik strax á upphafsmínútu síðari hálfleiks þegar Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði eftir fyrirgjöf frá Sölva Snæ. Skagamenn fundu aldrei taktinn í síðari hálfleik, gekk illa að halda boltanum og náðu ekki að skapa sér nein almennileg marktækifæri. Þriðja og síðasta mark Stjörnunnar skoraði Baldur Sigurðsson á 70. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Heimamenn hefðu getað skorað fleiri mörk í síðari hálfleik því þeir komust tvisvar í dauðafæri þar sem Árni Snær Ólafsson í marki ÍA varði vel. Auk þess áttu þeir skot í stöngina seint í leiknum.

Skagamenn hafa tapað fjórum leikjum í röð og sitja nú í 7. sæti deildarinnar með 22 stig eftir 17 umferðir. Þeir hafa jafn mörg stig og Fylkir í sætinu fyrir neðan en eru stigi á eftir Val, sem þó á leik til góða. Næst mætir ÍA botnliði ÍBV á Akranesvelli laugardaginn 24. júlí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir