Snæfell vann öruggan sigur á KM. Ljósm. sá.

Snæfell tók toppsætið á ný

Snæfellingar unnu stórsigur á KM í 12. umferð fjórðu deildar karla í knattspyrnu og hrifsuðu í leiðinni toppsætið til sín á ný frá Hvíta riddaranum. Leikið var á Stykkishólmsvelli á laugardaginn. Fyrsta mark leiksins kom hjá Hólmurum á 27. mínútu. Sigurjón Kristinsson kom þá sínum mönnum yfir. Tveimur mínútum síðar jafnaði Orats Reta Garcia metin fyrir KM. Rétt undir lok fyrri hálfleiks kom Alfredas Skroblas heimamönnum yfir á ný og leiddu þeir 2-1 í hálfleik.

Í byrjun síðari hálfleiks var nokkuð jafnræði með liðunum. Það var ekki fyrr en á 61. mínútu þegar næsta mark kom. Þá bætti Matteo Tuta við þriðja marki Stykkishólmsliðisins. Níu mínútum síðar kom fjórða markið, þá frá Lovre Krncevic. Á 82. mínútu skoraði Milos Janicijevic fimmta mark þeirra rauðklæddu og Lovre Krncevic bætti við tveimur mörkum á 87. og 89. mínútu. Matteo Tuta skoraði svo annað mark sitt í uppbótartíma og kórónaði stórsigur með því að setja boltann í netið. Öruggur 8-1 sigur Hólmara staðreynd.

Hólmarar fá kærkomin þrjú stig í B-riðli fjórðu deildar en mikil barátta er á milli Stykkishólmsliðisins, Hvíta Riddarans og Kormáks/Hvatar um hvert þeirra fær sæti í úrslitakeppni fjórðu deildar. Einungis þrjú stig skilja að Snæfell sem er í efsta sæti og Hvíta riddarann sem eru í því þriðja en efstu tvö liðin fara áfram í úrlsitakeppnina.

Tvær umferðir eru eftir af hefðbundnum deildarleikjum og fá Snæfellingar botnlið Afríku til sín á Stykkishólsvöll næsta laugardag. Leikurinn hefst klukkan 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.