Ed Sheeran verður í Laugardalnum um helgina. Ljósm. Wikimedia Commons/Lifebyyahli

Tugþúsundir fara á Ed Sheeran tónleika um næstu helgi

Breski tónlistarmaðurinn Ed Sheeran heldur stórtónleika í Laugardalnum um næstkomandi helgi og vinnur starfsfólk nú hörðum höndum að því að setja sviðið upp og gera tónleikasvæðið tilbúið fyrir þeim tugþúsundum gesta sem eiga miða á tónleikana. Aðaltónleikarnir fara fram laugardaginn 10. ágúst og hefst dagskráin klukkan 12 á hádegi þegar aðdáendasvæðið í Laugardalshöll verður opnað, en það verður líka opið þeim sem ekki eru með miða. Ýmis afþreying verður í boði fram eftir degi þangað til Ed Sheeran sjálfur stígur á svið um kvöldið.

Á aðdáendasvæðinu mun DJ Danni Deluxe þeyta skífum, hoppukastali verður í boði fyrir börnin og enski boltinn verður sýndur á risaskjá svo nóg verður um að vera fyrir tónleikagesti. Einnig geta gestir fengið sér mat og drykk á svæðinu ásamt því að getað keypt sér ýmiss konar Ed Sheeran, Zara Larsson og Glowie varning. Laugardalsvöllurinn sjálfur opnar fyrir tónleikagestum kl. 16:00 en sætaferðir hefjast frá Kringlunni kl 15:30 þar sem farið verður á um 20 mínútna fresti með gesti á Laugardalsvöll til klukkan 22:00.

Íslenska tónlistarkonan Glowie stígur fyrst á svið klukkan 18:00, á eftir henni, klukkan 18:45, kemur hin sænska Zara Larsson og trúbadorinn James Bay mun svo ljúka upphituninni þegar hann mætir á sviðið klukkan 19:45. Ed Sheeran sjálfur byrjar svo að spila klukkan 21:00 og gert er ráð fyrir að tónleikunum ljúki um 23:00.

Þeir sem eiga miða á tónleikana geta nálgast þá í sérstakri Ed Sheeran verslun í Kringlunni sem er opin til 11. ágúst en þann dag fara fram seinni tónleikarnir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir