Ljósm. Úr safni/ gbh.

Grátlegt tap í Kaplakrikanum

Skagamenn þurftu að sætta sig við tap gegn FH í Kaplakrikanum í gærkvöldi þegar liðin mættust í 15. umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu.

ÍA byrjaði leikinn betur og voru mun ákveðnari fyrsta hálftímann. Þeir gulklæddu fengu algjört dauðafæri strax á 11. mínútu en markvörður FH náði að verja stórkostlega. Þeir gulklæddu héldu uppi sama hætti út hálfleikinn og voru áræðnir að marki heimamanna. FH-ingar náðu þó að vinna sig betur inn í leikinn hægt og rólega og hægja á gestunum. Lið gengu markalaus inn í hálfleik.

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik sterkari en gestirnir og sóttu hart að Skagamönnum. Átti FH einhver álitleg færi snemma í seinni hálfleik, en leikurinn var heldur tíðindalítill á stórum kafla þar sem hvorugt liðið náði að ógna marki að einhverri alvöru. Það var ekki fyrr en á 88. mínútu að Steven Lennon úr liði FH fékk boltann í teig ÍA og með tilþrifum hamraði boltanum upp í vinkilinn. 1-0 fyrir FH. Skagamenn reyndu hvað þeir gátu til þess að jafna metin á uppbótartímanum en ekki vildi boltinn inn og þar með FH sigur staðreynd að leik loknum.

ÍA heldur 3. sætinu með 22 stig. Heimamenn færa sig upp um þrjú sæti og eru nú einu sæti fyrir neðan Skagamenn með jafn mörg stig. Næsta sunnudag fær ÍA Breiðablik í heimsókn. Leikið verður á Akranesvelli og hefst leikurinn klukkan 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira