Gestir fá fjölnota álbrúsa til að fylla á hvar sem er og minnka í leiðinni plastnotkun.

Farfuglar efna til Vatnsviku

Farfuglar efna til Vatnsviku dagana 5.-10 ágúst í þeim tilgangi að vekja athygli gesta á mengun af völdum plasts og hvetja þá til að nota brúsa í stað þess að kaupa vatn í einnota plastflöskum. Einnig benda samtökin ferðamanninum á góða kranavatnið hér á landi og gildi þess að vera ábyrgir ferðamenn en 65% þeirra segjast frekar kaupa vatn á flöskum í ferðalaginu og 79% segjast ekki treysta vatni úr krana á þeim stöðum sem þeir ferðast til en 80% plastflaska enda sem landfylling eða í sjónum.

Á síðasta ári vöktu Farfuglaheimilin athygli á plastpokalausa deginum sem var haldin í júlí. Það var gert með því að gefa gestum sem komu á Farfuglaheimilin þann dag taupoka. Í Vatnsvikunni munu gestir fá afhenta fjölnota álbrúsa sem auðvelt er að hafa með sér og fylla á hvar sem er. „Við munum hvetja ferðamenn að nota brúsa í stað þess að kaupa vatn í einnota plastflöskum, sem enda langflestar í landfyllingu,“ segir í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Farfuglar eru hluti af alþjóðasamtökum Hostelling International, einni stærstu gistihúsakeðju í heimi og eru Farfuglaheimilin staðsett í yfir 80 löndum í öllum heimsálfum þar á meðal Íslandi.

Meira en þrjátíu Farfuglaheimili, víðsvegar hér á landi, taka þátt í viðburðinum. Hægt er að fylgjast með á vef Farfugla og samfélagsmiðlum Farfuglaheimilanna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir