Gangandi vegfarendum Í Borgarnesi bent á eitthvað áhugavert. Ljósm. glh.

Dytta að umhverfinu

Ungmenni í vinnuskólanum í Borgarnesi hafa verið dugleg að dytta að og fegra bæinn sinn í sumar. Eru ýmis verk sem þarf að vinna og sinna yfir sumartímann og eru mörg verkefnanna eitthvað sem gleður bæjarbúa og gesti sem eiga leið um bæinn.

Í síðustu viku lappaði vinnuhópurinn upp á bekk sem er staðsettur fyrir neðan Egilsgötuna og málaði hópurinn hann eldrauðan í stíl við vegglistina þar hjá, en þessi bekkur hefur verið vinsæll staður meðal ferðamanna að tylla sér á. Settu ungmennin niður staura og máluðu gönguleiðir upp á útivistarsvæðinu Einkunnum rétt fyrir ofan bæinn ásamt því að hreinsa fjöruna í Englendingavík af glerbrotum og rusli.

Einnig hefur hópurinn útbúið skemmtilegt og litríkt skilti sem blasir við þegar fólk tekur vinstri beygjuna inn í bæinn. Skiltið er staðsett á túninu andspænis heilsugæslustöðinni og því vel áberandi við aðalgötu bæjarins. Þar má lesa ýmislega áhugaverða staði sem leynast í nærumhverfinu og fjær og reynist góður byrjunarreitur fyrir gesti bæjarins sem ekki eru vissir hvert skal fara. Til dæmis er Eyjafallajökull merktur, sundlaugin í Borgarnesi, vatnstankurinn upp í Bjargslandi og Ástralía svo fátt eitt sé nefnt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir