Kristján Helgi Carrasco og Kristinn Birkisson gengu þvert yfir Ísland frá austri til vesturs á 30 dögum. Hér eru þeir að fagna á endastöð við Grjóteyri. Ljósm. arg.

Gengu þvert yfir Ísland frá austri til vesturs

Þeir Kristján Helgi Carrasco og Kristinn Birkisson lögðu af stað í göngu um öræfi Íslands í lok júní þegar þeir lögðu af stað frá Lóni á Austurlandi. Þeir gengur þvert yfir hálendi Íslands og niður í Borgarfjörð í vestri og náðu á áfangastað í fjörunni við Grjóteyri rétt utan við Borgarnes á mánudagskvöldið. Þá höfðu þeir gengið rúmlega 580 kílómetra á 30 dögum, frá fjöru í austri yfir í fjöru í vestri. Hugmyndin af göngunni kviknaði út frá drögum að gönguleið sem þau Róbert Marshall, Brynhildur Ólafsdóttir, Páll Ásgeir Ásgeirsson, Rósa Sigrún Jónsdóttir og Einar Skúlason settu saman yfir kjötsúpu. Þau langaði að setja saman langa og krefjandi gönguáskorun um Ísland, sambærilega þeim sem eru til víða erlendis. Þau vörpuðu fram þessari gönguleið í gegnum tímaritið Úti og óskuðu eftir göngufólki til að fara þessa leið. Þeir Kristján Helgi og Kristinn ákváðu að slá til.

 

Ekki eins laskaðir og þeir bjuggust við

Við komuna að Grjóteyri á mánudagskvöldið tók á móti þeim hópur fólks sem fylgdi þeim síðustu metrana niður að sjó. Þar ætluðu þeir að stinga tánum í sjóinn sem endapunkt göngunnar en enduðu á að stinga sér til sunds í sjónum. En hvernig kom það til að þeir lögðu af stað í þessa ferð? „Ævintýraþrá,“ svarar Kristján Helgi. „Þetta er í rauninni lífið okkar bara. Útivist er okkar aðal áhugamál,“ bætir Kristinn þá við. Þeir segjast þau ekki hafa lagt í svo stórt verkefni áður. „Þetta er svona það stærsta fram að þessu en við það má segja að við þrífumst á að ögra sjálfum okkur og gera krefjandi hluti,“ segja þeir félagar. Spurðir hvort eitthvað hafi komið þeim sérstaklega á óvart á leiðinni eru þeir sammála um að það hafi verið hversu mikið þeir gátu gengið án þess að klára alla orkuna. „Við vorum að ganga að meðaltali 23 kílómetra á dag og tókum fjóra daga í hvíld. Við gengum mest 36 kílómetra á einum degi en við urðum held ég aldrei alveg úrvinda á leiðinni,“ svarar Kristinn. „Ég bjóst við því að við yrðum meira laskaðir en okkur hefur bara liðið vel og alveg náð að halda sönsum,“ bætir Kristján Helgi við og Kristinn tekur undir. „Við vorum alveg búnir undir að þetta yrði erfitt andlega en það var svo ekki. Það hjálpaði örugglega að við fengum rosalega gott verður alla leiðina, það komu bara fjórir rigningardagar en aldrei neitt brjálað veður. Það hjálpaði örugglega líka að við erum báðir mjög jákvæðir og sterkir, bæði í hausnum og skrokknum svo það gerir allt mikið auðveldara,“ segja þeir.

 

Bættust mörg ævintýri í bókina

Nú þegar göngunni er lokið hvað tekur þá við? „Að fá okkur ís í Borgarnesi,“ segir Kristinn og hlær. „Svo fer maður bara aðeins til ömmu Helgu á Skaganum,“ bætir Kristján Helgi við. Aðspurðir segja þeir þetta ekki vera þeirra síðasta ævintýri. „Núna þurfum við bara að setjast niður og fara yfir þessa ferð saman og svo taka bara við önnur ævintýri,“ segir Kristinn. „Það bættust við ansi mörg ævintýri í bókina á leiðinni,“ bætir Kristján Helgi við og hlær. „En núna tekur bara við að fara að vinna aftur og svo höldum við bara alltaf áfram að gera eitthvað svona skemmtilegt,“ segja þeir að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir