Skallagrímsmenn riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni gegn KF. Ljósm. úr safni/ glh.

Skallagrímsmenn burstaðir

Skallagrímsmenn fengu heldur betur skell þegar þeir mættu KF í 15. umferð 3. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var á Ólafsfjarðarvelli og lauk leiknum með 8-1 sigri heimamanna.

Andri Snær Sævarsson kom KF yfir strax á 2. mínútu leiksins. Aksentije Milisic kom KF í 2-0 á 16. mínútu og Alexander Már Þorláksson skoraði þriðja mark heimamanna á 22. mínútu. Jordan Damachoua og Valur Reykjalín Þrastarson skoruðu sitt markið hvor áður en Elís Dofri G Gylfason klóraði í bakkann fyrir Skallagrím á 43. mínútu og staðan 5-1 í hálfleik.

Alexander Már skoraði síðan tvö mörk með stuttu millibili á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks og fullkomnaði þar með þrennu sína. Það var síðan Þorsteinn Már Þorvaldsson sem rak smiðshöggið á leik heimamanna með marki á 90. mínútu. Lokatölur 8-1, KF í vil.

Borgnesingar sitja í tólfta og neðsta sæti deildarinnar með sex stig og eru fjórum stigum á eftir KH í sætinu fyrir ofan. Botnliðin tvö mætast einmitt í næstu umferð. Leikur Skallagríms og KH fer fram í Reykjavík föstudaginn 9. ágúst næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira