Jonni og Hrafnhildur á Sturlureykjum í Reykholtsdal. Ljósm. arg.

„Enda er góður hestur sá sem allir geta riðið“

Á Sturlureykjum í Reykholtsdal búa þau Hrafnhildur Guðmundsdóttir og Jóhannes Kristleifsson og hafa rekið þar hestatengda ferðaþjónustu til margra ára. Jonni er fæddur og uppalinn á Sturlureykjum og hefur fjölskyldan hans búið þar í um eina og hálfa öld. „Þetta byrjaði þegar ég fór út til Þýskalands að vinna á haustin og þar var fólk sem vildi koma til Íslands í hestaferðir og báðu mig um að græja slíkt fyrir sig. Fyrsti hópurinn kom svo árið 1992,“ segir Jonni um það hvernig hann byrjaði með hestaferðir á Sturlureykjum. „Svo hefur þetta verið stanslaust síðan,“ bætir Hrafnhildur við. Sjálf er Hrafnhildur alin upp á Bjarnastöðum í Hvítársíðu þar sem einnig var rekin hestaleiga. „Þetta er ekkert nýtt fyrir okkur og við erum bæði búin að lifa og hrærast í þessu í fjöldamörg ár,“ segir Hrafnhildur.

Fá að taka „hestaselfie“

Í júní 2017 var enn á ný opnuð hestaleiga á Sturlureykjum en þá með breyttum áherslum. Í dag er aðeins tekið á móti fólki í heimsókn í hesthús og í stutta reiðtúra. „Við höfum verið að þróa þetta hægt og rólega og pössum að víkja aldrei frá upprunalegu hugmyndinni um að hafa þetta fyrst og fremst einfalt en persónulegt,“ segir Hrafnhildur og Jonni tekur undir það. Þau hafa byggt aðstöðuna upp hægt og rólega síðustu ár og eru nú með góða kaffistofu þar sem þau taka á móti gestum. Fyrir framan kaffsistofuna er stórt bílaplan og gerði fyrir hestana sem taka á móti gestunum. „Við byrjum á að bjóða fólk velkomið inni á kaffistofunni okkar þar sem við segjum aðeins frá okkur og hestunum okkar og sögu Sturlureykja, sýnum smá myndband þar sem við fléttum inní sögu Sturlueykja, hestana okkar, heita vatnið og gangtegundirnar fimm sem íslenski hesturinn hefur upp á að bjóða. Síðan er gestum boðið  inn í hesthús þar sem við hittum hestana í eigin persónu, þar segjum við segjum aðeins frá hverjum og einum, hvað þeir heita, hvernig skapgerð, klöppum, tökum myndir og skoðum síðan heita hverinn okkar. Héðan fer enginn nema taka alvöru „hestaselfie“,“ segir Hrafnhildur og brosir.

Nánar er rætt við Hrafnhildi á Sturlureykjum í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir