Byrjunarlið Kára fyrir leikinn í gær. Ljósm. Knattspyrnufélag Kára.

Baráttusigur Kára

Kári vann iðnaðarsigur á sterku liði Vestra, 1-0, þegar liðin mættust í 14. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Akranesi í gærkvöldi.

Eina mark leiksins kom á 17. mínútu. Sverrir Már Smárason átti þá langa sendingu upp að vítateigshorninu vinstra megin. Andri Júlíusson fleytti boltanum áfram á Arnleif sem kom á ferðinni af kantinum, komst með miklu harðfylgi alla leið að markteigshorninu þar sem hann skoraði með snyrtilegu skoti í hornið fjær.

Gestirnir voru meira með boltann í fyrri hálfleik en tókst ekki að skapa sér mikið af marktækifærum. Þeir fengu aðeins eitt virkilega gott færi sem Aron Bjarki Kristjánsson varði vel í marki Kára.

Hákon Ingi Einarsson var rekinn af velli á 57. mínútu með sitt annað gula spjald eftir brot á Andra. Gestirnir voru því manni færri það sem eftir lifði leiks og tilraunir þeirra til að jafna metin báru ekki árangur. Besta færið fengu þeir á 89. mínútu. Boltinn var skallaður fyrir markið þar sem tveir Vestramenn voru einir á auðum sjó en skotið slakt og beint á Aron í markinu úr sannkölluðu dauðafæri.

Kári hefur 14 stig í ellefta sæti deildarinnar, stigi á eftir KFG í sætinu fyrir neðan en með átta stiga forskot á botnlið Tindastóls. Næst leika Káramenn laugardaginn 10. ágúst næstkomandi þegar þeir sækja lið Fjarðarbyggðar heim.

Líkar þetta

Fleiri fréttir