Erla Karitas Jóhannesdóttir nýbúin að koma boltanum yfir línuna og Skagakonur fagna. Ljósm. gbh.

Grátlegt tap Skagakvenna

ÍA mátti sætta sig við svekkjandi 1-2 tap gegn Tindastóli þegar liðin mættust í níundu umferð Inkasso deildar kvenna í knattspyrnu á Akranesi á föstudagskvöld. Gestirnir skoruðu tvö mörk á lokamínútunum og stálu sigrinum.

Skagakonur mættu ákveðnar til leiks en það var engu að síður Tindastólsliðið sem var heilt yfir öflugra og fékk betri færi í fyrri hálfleik. Maurielle Tiernan fékk besta færi hálfleiksins þegar hún slapp ein í gegn en Aníta Ólafsdóttir lokaði á hana og varði vel. ÍA liðið átti nokkrar álitlegar sóknir sem ekki tókst að nýta og staðan því markalaus í hálfleik.

Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Dró til tíðinda á 57. mínútu þegar María Dögg Jóhannesdóttir var rekin af velli úr liði Tindastóls. Eftir baráttu við Erlu Karitas Jóhannesdóttur virtist María brjóta á henni en sparkaði síðan viljandi í hana þar sem hún lá á jörðinni. Uppskar hún verðskuldað rautt spjald fyrir vikið.

Skagakonur sóttu í sig veðrið eftir þetta og ógnuðu meira og meira eftir því sem leið á leikinn. Kom loksins að því að þær skoruðu á 81. mínútu leiksins. Eftir tvö skot að marki Tindastóls sem Lauren Allen varði vel barst boltinn á Erlu Karitas sem kom honum yfir marklínuna og ÍA í 1-0.

En gestirnir voru ekki af baki dottnir. Skömmu síðar slapp Murielle ein í gegn en Aníta varði glæsilega frá henni í horn. Upp úr hornspyrnunni jöfnuðu Tindastólskonur metin þegar Murielle skoraði.

Á lokamínútu venjulegs leiktíma var Klara Kristvinsdóttir nálægt því að tryggja ÍA sigur með þrumuskoti af löngu færi sem small í þverslánni. Tindastóll fór í sókn og sótti hornspyrnu og upp úr henni skoraði Murielle með skalla og stal sigrinum fyrir Sauðkrækinga. Ótrúleg dramatík á Akranesvelli og ákaflega svekkjandi tap fyrir ÍA liðið.

Skagaskonur eru í sjöunda sæti deildarinnar með ellefu stig, jafn mörg og Grindavík og Fjölnir í sætunum fyrir neðan en stigi á eftir Haukum og Augnabliki í sætunum fyrir ofan. Næst leika Skagakonur fimmtudaginn 25. júlí, þegar þær mæta toppliði FH í Hafnarfirði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir