Harley Willard skoraði annað mark Víkings Ó. í jafnteflinu gegn Gróttu. Ljósm. úr safni/ af.

Dramatískt jafntefli Víkings

Víkingur Ó. og Grótta skildu jöfn, 2-2, í dramatískum leik í 13. umferð Inkasso deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á Seltjarnarnesi á laugardaginn var.

Fyrri hálfleikur var fjörugur í meira lagi, opinn og skemmtilegur. Besta færi fyrri hálfleiks fengu Ólafsvíkingar á 28. mínútu. Ívar Reynir Antonsson átti frábæra sendingu fyrir markið á Sallieu Tarawallie sem skallaði boltann í þverslána. Færin voru mun fleiri en mörkin létu þó á sér standa og staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Það átti hins vegar eftir að breytast og það snarlega, því heimamenn komust yfir á 47. mínútu þegar Axel Freyr Harðarson skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

Ólafsvíkingar voru ekki lengi að jafna metin. Vidmar Miha tók aukaspyrnu á 51. mínútu. Boltinn fór af Sallieu og þaðan á fjærstöng þangað sem Emmanuel Keke var mættur og lagði boltann í netið.

Á 71. mínútu fengu Ólafsvíkingar vítaspyrnu eftir að brotið var á Vidmar í teignum. Harley Willard fór á punktinn, skoraði af miklu öryggi og kom Víkingsliðinu yfir.

Eftir því sem leið varð leikurinn daufari. Ólafsvíkingar féllu til baka og leikurinn virtist vera að fjara út þegar Sölvi Björnsson féll í vítateig Víkings í uppbótartíma og vítaspyrna var dæmd. Óliver Dagur Thorlacius tók spyrnuna, skoraði af öryggi og jafnaði metin á ögurstundu. Lokatölur á Seltjarnarnesi urðu því 2-2.

Víkingur Ó. situr í fjórða sæti deildarinnar með 21 stig, jafn mörg og Leiknir í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum á eftir Grótt usem vermir þriðja sætið. Næst leika Ólafsvíkingar fimmtudaginn 25. júlí, þegar þeir mæta Þrótti R. á Ólafsvíkurvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir