Ljósm. úr safni/ af.

Öflugri allan leikinn

Víkingur Ó. sigraði Hauka 2-0 þegar liðin mættust í tólftu umferð Inkasso deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var á Ólafsvíkurvelli og það voru heimamenn sem voru sterkari allan leikinn.

Ólafsvíkingar mættu ákveðnir til leiks, áttu fín færi í upphafi og komust yfir á 13. mínútu. Vidmar Miha skaut að marki utan teigs. Skoti var fast og lágt svo Sindri Þór Sigþórsson í marki Hauka réði ekki við það. Heimamenn voru mun sterkari eftir markið og fengu tækifæri til að auka forskot sitt en tókst ekki að nýta þau.

Haukar fengu vítaspyrnu á 37. mínútu leiksins og gullið tækifæri til að jafna metin. Ásgeir Þór Ingólfsson fór á punktinn en Franko Lalic varði skot hans glæsilega alveg út við stöng.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks kom Sallieu Tarawallie Víkingi í 2-0 með skalla af markteigslínu og þannig var staðan í hléinu.

Ólafsvíkingar voru öflugri eftir hléið og fengu allnokkur færi til að bæta við mörkum en þau tókst ekki að nýta. Harley Willard átti hörkuskot að marki þegar tíu mínútur lifðu leiks og skömmu fyrir leikslok þrumaði Grétar Snær Gunnarsson boltanum í stöngina.

Lokatölur urðu 2-0 og með sigrinum lyftir Víkingsliðið sér upp í fjórða sæti deildarinnar. Liðið hefur 20 stig, jafn mörg og Fram í sætinu fyrir neðan en er þremur stigum á eftir Þór sem situr í þriðja sætinu. Næst leika Ólafsvíkingar gegn Gróttu á útivelli laugardaginn 20. júlí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir