Ljósm. Knattspyrnufélag Kára.

Fjögurra marka tap á Selfossi

Káramenn riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Selfyssinga, þegar liðin mættust í elleftu umferð 2. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var á Selfossi.

Káramenn byrjuðu leikinn ágætlega, léku prýðilega lengst framan af fyrri hálfleik og fengu fín færi. Þeim tókst hins vegar ekki að koma boltanum í netið. Það voru Selfyssingar sem brutu ísinn á 41. mínútu þegar Adam Örn Sveinbjörnsson skoraði eftir hornspyrnu. Á lokamínútu fyrri hálfleiks kom Rafn Ingibergsson heimamönnum í 2-0 með þrumuskoti fyrir utan teig sem söng í netinu efst uppi í fjærhorninu. Selfyssingar fóru því með tveggja marka forystu inn í hléið.

Þeir héldu uppteknum hætti eftir hléið. Kenan Turudija skoraði stórglæsilegt mark á 52. mínútu. Hann smellhitti boltann af löngu færi svo hann sveif í fjærhornið þar sem hann small í þverslána og inn. Átta mínútum síðar innsiglaði Þór Llorens Þórðarson síðan 4-0 sigur heimamanna þegar hann skoraði úr þröngu færi. Selfyssingar búnir að gera út um leikinn með fjórum mörkum á 20 mínútna leikkafla. Fleiri mörk voru ekki skoruð og lokatölur urðu því 4-0, Selfyssingum í vil.

Kári hefur ellefu stig í ellefta sæti deildarinnar. Næst leikur liðið gegn Þrótti V. fimmtudaginn 18. júlí næstkomandi. Sá leikur fer fram á Akranesi.

kgk/ Ljósm. Knattspyrnufélag Kára.

Líkar þetta

Fleiri fréttir