Tap hjá Skallagrími

Skallagrímur tapaði naumt gegn Reyni Sandgerði, með tveimur mörkum gegn þremur, í elleftu umferð þriðju deildar í gær. Spilað var á Skallagrímsvelli í Borgarnesi í blankalogni og hlýju veðri.

Reynismenn byrjuðu mun betur og voru áberandi meira með boltann. Borgnesingar voru þó duglegir að mæta gestunum en alltaf náði Reynir boltanum til baka. Fyrsta mark skoraði Magnús Magnússon á 6. mínútu og kom gestunum snemma yfir í leiknum. Elvar Ingi Vignisson skilaði boltanum aftur í netið fyrir gestina og kom þeim í 2-0 áður en gengið var til hálfleiks.

Í síðari hlutanum urðu þeir gulklæddu örlítið beittari í sínum aðgerðum. Pedro Ehapo Creever minnkaði muninn í eitt mark þegar einungis ein mínúta var liðin af seinni hálfleik. Gestirnir sýndu þó engin merki um að gefa eftir þrátt fyrir áhlaup heimamanna. Theodór Guðni Halldórsson bætti í forskotið og kom gestunum í 3-1 á 63. mínútu. Töluvert fjör var í leiknum á loka mínútunum eftir að Sigurjón Ari Guðmundsson skoraði annað mark Skallanna og minnkaði muninn enn einu sinni í eitt mark. Ekki reyndist nægur tími í lokin fyrir Skallagrím að bæta við þriðja markinu og því Reynissigur staðreynd.

Nú er Íslandsmótið hálfnað í þriðju deild karla. Skallagrímur situr enn í næstsíðasta sæti með einungis sex stig og tvo sigra á tímabilinu. Næsti leikur Borgnesinga verður gegn Álftnesingum á Bessastaðavelli á sunnudag og hefst leikurinn klukkan 14:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir