Ljósm. Úr safni/ gbh.

Skagamenn gerður jafntefli á útivelli

ÍA gerði markalaust jafntefli við Víking R. í heldur bragðdaufum leik í 11. umferð Pepsi Max deild karla í gær. Leikurinn fór fram á Víkingsvelli í Reykjavík.

Skagamenn byrjuðu leikinn mun beittari en náðu þó aldrei að skapa sér alvöru færi á upphafsmínútunum. Eftir kröftuga byrjun gestanna fóru heimamenn hægt og bítandi að taka völdin á vellinum. Það var svo á 40. mínútu að dæmt var víti á Skagamenn. Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, missti af boltanum á klaufalegan hátt í eigin teig og felldi leikmann Víkings niður sem gerði atlögu að boltanum. Nikolaj Hansen fór á punktinn fyrir Víking, en misnotaði vítið þar sem Árni Snær náði að verja með fótunum. Jafnt var með liðum í hálfleik.

Seinni hálfleikur var heldur tíðindalítill. Heimamenn voru mun meira með boltann en þétt vörn og skipulag Skagamanna kom í veg fyrir einhverja markhættu. Af sama skapi voru Skagamenn lítið að skapa sér sóknarfæri og skildu liðin jöfn eftir steindauðan seinni hálfleik.

Þrátt fyrir markalaust jafntefli þá fær ÍA loksins stig eftir þrjá tapleiki í röð og heldur þannig fjórða sætinu í deildinni með 17 stig. Einu stigi fyrir ofan, í þriðja sæti, er Stjarnan og tveimur sæti fyrir neðan ÍA er Fylkir með 15 stig. Efstir í deildinni eru KR-ingar úr Vesturbænum með 26 stig. Næsti leikur Skagamanna verður heimaleikur gegn Fylki á laugardaginn og hefst hann klukkan 14:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir