Ljósm. úr safni/sá.

Snæfell vann í toppslagnum

Snæfell hafði betur gegn Hvíta riddaranum þegar liðin mættust í toppbaráttuleik í sjöundu umferð B-riðils í fjórðu deild karla í Stykkishólmi í gærkvöldi. Um var að ræða fjörugan leik en fyrir viðureignina voru bæði lið taplaus og með jafn mörg stig.

Engin mörk komu í fyrri hálfleik þrátt fyrir ágætis færi. Það var ekki fyrr en í síðari hálfleik sem að fyrsta markið leit dagsins ljós. Á 51. mínútu fékk Hvíti riddarinn dæmt víti á sig. Milos Janicijevic fór á punktinn fyrir Hólmara og kom sínum mönnum yfir. Heimamenn voru varla búnir að fagna markinu þegar Eiríkur Þór Bjarkason jafnaði metin fyrir Hvíta riddarann, þremur mínútum síðar. Hart var barist um svæði og bolta en það voru heimamenn sem komust aftur yfir á 72. mínútu með marki frá Carles Martinez Liberato. Marius Ganusauskas bætti svo við þriðja marki Snæfells tveimur mínútum síðar og heimamenn komnir í vænlega stöðu, 3-1, þegar 15 mínútur voru til leiksloka. Gestirnir náðu að klóra í bakkann og minnka muninn á 88. mínútu þegar Eiríkur Þór bætti sínu öðru marki við. Það dugði þó ekki til. Þrjú stig til Snæfellinga sem sitja nú einir á toppi riðilsins með 19 stig, þremur stigum meira en Hvíti riddarinn sem sitja eftir í öðru sæti.

Snæfellingar fá annan heimaleik í næstu umferð, að þessu sinni gegn ÍH. Leikurinn fer fram á Stykkishólmsvelli föstudaginn 7. júlí og hefst hann klukkan 20:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir