Súrt tap hjá Skallagrími

Skallagrímsmenn þurftu að sætta sig við tap gegn Hetti/Hugin í botnbaráttu liðanna þegar þau mættust fyrir austan í 8. umferð þriðju deildar í fótbolta á laugardag. Leikurinn var fjörugur í alla staða og leikmenn á skotskónum.

Fyrsta mark leiksins kom frá heimamönnum á 32. mínútu þegar Petar Mudresa kom sínum mönnum yfir. Borgnesingar létu sér ekki segjast og voru snöggir að jafna metin þegar Cristofer Rolin kom boltanum í netið. Höttur/Huginn náði þó að koma sér aftur í bílstjórasætið þegar Ivan Bubalo laumaði inn marki til viðbótar á uppbótartíma fyrri hálfleiks og leiddu heimamenn þegar flautað var til hálfleiks, 2-1.

Borgnesingar komu ferskir til leiks í síðari hálfleik og skoruðu tvö mörk á þriggja mínútna kafla. Cristofer Rolin skoraði annað mark sitt á 51. mínútu fyrir Skallagrím og jafnaði metin enn og aftur. Þremur mínútum seinna var Sigurjón Logi Bergþórsson á ferðinni og kom Borgnesingum yfir í fyrsta skipti í leiknum. Hart var barist alveg fram á loka mínúturnar og virtist sem að Skallagrímsmenn ætluðu að sigla sigrinum heim. Ivan Bubalo náði að koma í veg fyrir það og jafnað metin fyrir heimamenn á 86. mínútu. Það var svo Heiðar Logi Jónsson sem gulltryggði sigur Hattar/Hugin á uppbótartíma rétt undir lokin. Ekki var nægur tími fyrir Skallagrím að svara og sigur heimamanna staðreynd.

Höttur/Huginn færir sig upp um eitt sæti í það níunda og er með níu stig á meðan Skallagrímur sitja enn í því tíunda með sex stig. Næsti leikur Skallagrímsmanna fer fram í Borgarnesi á fimmtudaginn þegar þeir taka á móti Kórdrengjum. Leikurinn hefst klukkan 20.00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir