Maður leiksins var valinn Lars Marcus Johansson en hann má sjá hér taka við verðlaunum sínum frá Magnúsi Guðmundssyni, formanni KFÍA. Ljósm. kfia.is

Þrír tapleikir í röð hjá ÍA

ÍA tapaði gegn HK í nýliðaslag þegar liðin mættust í 10. umferð karla í Pepsi Max deildinni í gær. Bæði lið komu sér upp úr 1. deildinni fyrir ári síðan þar sem ÍA var efst að tímabilinu loknu og HK-ingar næstefstir og liðin því vel kunnug hvor öðru. Leikurinn fór fram á Akranesvelli. Upphafsmínúturnar voru fjörugar og heimamenn til alls líklegir. Gestirnir voru þó klókari og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 10. mínútu. Bjarni Gunnarsson fékk þá boltann við vítateigslínu Skagamanna, náði með tilþrifum að snúa sér af varnarmanni ÍA og hamraði boltanum örugglega upp í hornið. Hélt HK þessu forskoti þegar gengið var til leikhlés.

Í síðari hálfleik voru gestirnir úr Kópavogi mun sprækari og sóttu hart að Skagamönnum um leið og flautað var aftur til leiks. Það voru ekki nema fimm mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar HK bætti við sínu öðru marki. HK-ingar komust þá í skyndisókn að marki heimamanna sem virtust sofa á verðinum. Bjarni Gunnarsson kom þá á hraðferð upp völlinn með knöttinn og náði að stinga boltanum innfyrir á liðsfélaga sinn, Valgeir Valgeirsson, sem kláraði færið af miklu öryggi. 0-2 fyrir gestunum. Þetta virtist taka alla orku úr liði Skagamanna sem áttu engin svör og voru hvergi líklegir til að skapa sér almennileg marktækifæri það sem eftir lifði leiks. HK sigur því staðreynd.

Þetta var þriðji tapleikur Skagamanna í röð. Liðið heldur þriðja sætinu í deildinni með 16 stig, fjórum stigum á eftir KR-ingum sem eru í öðru sæti og fjórum stigum á undan Fylki sem eru í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur ÍA verður gegn Víkingi R. sem erum í næstneðsta sæti deildarinnar. Sá leikur fer fram á Víkingsvelli í Reykjavík, mánudaginn 1. júlí klukkan 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir